Enski boltinn

Vialli: Ítölsku félögin væru búin að reka Moyes þrisvar sinnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Táknræn mynd fyrir gengi David Moyes sem knattspyrnustjóra Manchester United.
Táknræn mynd fyrir gengi David Moyes sem knattspyrnustjóra Manchester United. Vísir/Getty
Það hefur gengið hjá ýmsu hjá David Moyes á hans fyrsta tímabili sem knattspyrnustjóri Manchester United en það var ekkert grín fyrir hann að taka við af Sir Alex Ferguson.

Gianluca Vialli, fyrrum leikmaður Juventus og Chelsea, er svolítið hissa á því að David Moyes sé enn í starfi á Old Trafford eftir skelfilegt gengi liðsins á tímabilinu.

„Þetta hefði aldrei getað gerst hjá ítölsku félagi. Á Ítalíu eru stjórar dæmdir eftir úrslitunum," sapði Gianluca Vialli við blaðamann BBC.

„Ítölsku félögin væru búin að reka Moyes þrisvar sinnum en á Englandi fá stjórar meiri tíma til að lagafæra það sem miður fer," sagði Vialli.

Ensku úrvalsdeildarliðin hafa reyndar verið dugleg að reka þjálfara á þessu tímabili því þeir Paolo Di Canio (Sunderland) , Ian Holloway (Crystal Palace) , Martin Jol (Fulham) , Steve Clarke (WBA), Andre Villas - Boas (Tottenham) , Malky Mackay (Cardiff) , Michael Laudrup (Swansea) og Rene Meulensteen ( Fulham ) hafa allir verið látnir taka pokann sinn.

Tíu stjórar hafa misst starfið sitt í ítölsku deildinni á þessu tímabili. Vialli er engu að síður á því að það sé mikil munur á meðferð stjóra í þessum tveimur deildum.

„Það er meiri skilningur og umburðarlyndi í Englandi og eigendurnir þykjast heldur ekki vita meira um fótbolta en stjórarnir. Eigendurnir á Englandi gefa mönnum alltaf tíma til að koma sér inn í starfið en sparka þeim ekki eftir nokkrar vikur þótt að það gangi illa," sagði Vialli.

Gianluca Vialli var knattspyrnustjóri Chelsea í tvö tímabil en var rekinn frá félaginu á leiktíðinni 2000 til 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×