Enski boltinn

Eigandi Leeds féll á eigendaprófinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Massimo Cellino.
Massimo Cellino. Vísir/Getty
Massimo Cellino, eigandi enska félagsins Leeds United, má ekki koma nálægt stjórn félagsins næstu þrjá mánuðina eftir að hann féll á eigandaprófi ensku b-deildarinnar.

Forráðamenn ensku b-deildarinnar fengu upplýsingar frá ítölskum dómstól sem hafði dæmt Massimo Cellino sekan um skattsvik.

Hinn 58 ára gamli Massimo Cellino má því ekki hafa nein afskipti af félaginu til þar 18. mars á næsta ári en eftir það má hann stýra málum á Elland Road.

Massimo Cellino var sektaður um 600 þúsund evrur í mars á þessu ári eftir að hafa verið dæmdur sekur að hafa ekki greitt skatt af skútu sinni.

Cellino greiddi upp skuldir Leeds í sumar en þegar hann tók við í apríl var félagið að tapa í kringum einni milljón punda á mánuði. Hann tilkynnti á laugardaginn að hann ætli að henda tuttugu milljónum punda inn í félagið.

Massimo Cellino er búinn að stýra Leeds í sjö mánuði en er samt á sínum fjórða knattspyrnustjóra.

Brian McDermott hætti í maí og Dave Hockaday tók við. Dave Hockaday entist í aðeins sex leiki og Darko Milanic tók við af honum.

Milanic var síðan rekinn í október eftir að liðinu tókst ekki að vinna í fyrstu sex leikjum undir hans stjórn.

Neil Redfearn tók við liðinu af Slóvenanum og um síðustu helgi vann liðið sigur á toppliði Derby og komst upp í 15. sætið.

Forráðamenn Leeds United ætla ekki að taka þessum úrskurði þegjandi og hljóðalaust því félagið ætlar að fara með málið fyrir dómstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×