Enski boltinn

Arsenal upp í fjórða sætið | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsenal bar sigurorð af West Bromwich Albion á The Hawthorns í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Staðan var markalaus í leikhléi, en leikmenn Arsenal voru líklegri til að skora í fyrri hálfleik.

Besta færið átti Danny Welbeck þegar hann komst einn gegn Ben Foster sem varði frá samherja sínum í enska landsliðinu.

Oliver Giroud var einnig nálægt því að skora eftir mistök Fosters og þá átti Aaron Ramsey skot rétt framhjá.

West Brom ógnaði sama og ekki neitt, en liðið átti ekki skot að marki Arsenal í fyrri hálfleik.

Welbeck braut loks ísinn þegar hann skoraði með föstum skalla á 60. mínútu eftir frábæran undirbúning og fyrirgjöf Santis Cazorla sem spilaði manna best í dag. Þetta var þriðja mark Welbecks í deildinni og hans fyrsta fyrir Arsenal í sex leikjum.

Alan Irvine, þjálfari West Brom, gerði hvað hann gat og skipti þremur varamönnum inn á eftir mark Welbecks.

Heimamenn ógnuðu þó lítið fyrr en á 81. mínútu þegar Saido Berahino átti skalla í slána eftir fyrirgjöf varamannsins Cristians Gamboa.

Craig Gardner átti einnig gott skot framhjá skömmu fyrir leikslok, en nær komst West Brom ekki og Arsenal fagnaði mikilvægum sigri. Liðið er nú í 4. sæti með 20 stig, en West Brom situr í því 13. með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×