Sport

Bjóða fólki að kynnast hrossunum áður en það kaupir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir á Gaddstaðaflötum skrifar
Stefán Birgir og Gangster frá Árgerði.
Stefán Birgir og Gangster frá Árgerði. mynd/stefán birgir
Stefán Birgir Stefánsson er annar inn í A-úrslit á Landsmóti hestamanna sem fram fer á Gaddstaðaflötum á Hellu. Stefán hefur getið sér gott orð sem tamningamaður og ræktandi og tamdi hann hest sinn sem hann sýnir á mótinu sjálfur. Hestur hans þykir með eindæmum fagur en þó er það ekki það eina sem vakið hefur athygli fólks því hesturinn ber nafnið Gangster sem þýða mætti sem glæpamaður á íslensku. Gangster kemur frá Árgerði, ræktun Stefáns og eiginkonu hans.

„Það var nú bara þannig að sem folald bar hann alltaf af í sínum árgangi. Hann var svo mikill töffari og allir sem sáu hann mundu eftir honum. Svo bara festist nafnið við hann,“ segir Stefán.

Ræktun þeirra hjóna, Litli-Garður, byggir á gamalgrónni ræktun Magna Kjartanssonar í Árgerði. „Það sem við erum að gera er í raun framhald af því sem hann gerði og byrjaði fyrir fimmtíu árum síðan. Það mætti segja að hægt sé að rekja ættir flestra hrossa til hryssu Magna, Snældu frá Árgerði, sem stóð efst á landsmóti árið 1978 á Þingvöllum.“

Þau hafa hingað til rekið hrossaræktarbú og tamningastöð en stefna nú á að bjóða upp á hestatengda ferðaþjónustu á bæ sínum í Eyjafjarðasveit. „Við ætlum að bjóða fólki að koma og vera hjá okkur. Þá er fólki sem er að spá í að kaupa hross einnig boðið að koma og vera í einhvern tíma til að skoða það sem við höfum og kynnast hrossum sem við höfum til sölu.“

Stefáni hefur gengið nokkuð vel á mótinu og er hann bjartsýnn á framhaldið. „Hryssan sem ég ætlaði að sýna reyndar heltist og gat ég því ekki sýnt hana sem var leiðinlegt, en annað hefur gengið vel og vonandi heldur þannig áfram,“ segir Stefán að lokum.




Tengdar fréttir

Landsmótið sett í blíðskaparveðri

Þrátt fyrir að veður hafi sett töluvert strik í reikninginn síðastliðna daga hafa landsmótsgestir ekki látið það mikið á sig fá og hefur það verið nokkuð vel sótt.

Segir hugarfar hestamanna byggjast á afneitun

Tungubogar, sem sagðir eru stríða gegn dýravelferðarlögum, eru enn í notkun meðal hestamanna. Hestafræðingur sakar hestamenn um að neita að horfast í augu við staðreyndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×