Íslenski boltinn

Magnús: Maður er alltaf með augun opin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Magnús Gylfason fylgir með leik sinna manna ásamt aðstoðarþjálfaranum Halldóri Jóni Sigurðssyni, Donna.
Magnús Gylfason fylgir með leik sinna manna ásamt aðstoðarþjálfaranum Halldóri Jóni Sigurðssyni, Donna. Vísir/Daníel
Valsmenn eru „aðeins“ búnir að skora eitt mark í síðustu tveimur leikjum sínum í Pepsi-deild karla og uppskorið eitt stig af sex mögulegum eftir frábæran sigur á Íslandsmeisturum KR í fyrstu umferðinni.

Félagið hefur leitað að framherja í vetur en þarf nú væntanlega að treysta á KolbeinKárason, Indriða Áka Þorláksson og Ragnar Þór Gunnarsson fram að næsta glugga en Kolbeinn komst á blað í gær í jafnteflinu gegn Fjölni.

Maðurinn sem Valur hefur viljað fá í allan vetur er Daninn Patrick Pedersen sem skoraði fimm mörk í níu leikjum fyrir liðið síðasta sumar eftir að hann kom um mitt tímabil. Sá orðróður hefur verið uppi að hann myndi ganga í raðir Hlíðarendafélagsins áður en glugganum verður lokað á fimmtudaginn.

„Það er ekki að fara að gerast. Við höfum reynt að fá hann í allan vetur en það hefur ekkert gengið. Við höfum verið að athuga með framherja og önnur leikmannamál en svo þegar nær dró móti fannst okkur hópurinn bara góður,“ sagði Magnús í samtali við Vísi í dag.

Pedersen spilar lítið sem ekkert með liði sínu Vendyssel í næstefstu deild Danmerkur en liðið er í harðri fallbaráttu og vill því tæplega missa menn þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir af deildinni. En eru Valsmenn að skoða aðra möguleika?

„Maður er alltaf með augun opin en ég tel miklu meiri líkur en minni að hópurinn breytist ekkert. Við erum líka með góðan hóp. Kolbeinn Kárason skoraði í gær og svona. Ég á ekki von á að bæta neinu við áður en glugginn lokar,“ sagði Magnús Gylfason.

Valsmenn eru sem stendur í 5. sæti deildarinnar með fjögur stig eftir þrjá leiki en þeir mæta næst Fram í Reykjavíkurslag á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×