Enski boltinn

Larsson reyndist örlagavaldur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurmark Sebastians Larsson gegn Manchester United á Old Trafford gerði endanlega út um vonir Fulham og Cardiff að bjarga sér frá falli, en hvorugt liðanna, sem töpuðu bæði í dag, getur nú náð Sunderland að stigum.

Heimamenn í Manchester United voru meira með boltann í leik dagsins og áttu fjölda fyrirgjafa, en sköpuðu sér lítið af góðum færum gegn þéttri vörn Sunderland.

Larsson skoraði eina mark leiksins eftir um hálftíma leik eftir fyrirgjöf frá leikmanni aprílmánaðar, Connor Wickham.

Ryan Giggs setti Adnan Januzaj, Danny Welbeck og Robin van Persie inn á í seinni hálfleik, en allt kom fyrir ekki. Varnarleikur Sunderland var vel skipulagður og liðið var svo í tvígang nálægt því að bæta við forystuna, en Ítalarnir Emanuele Giaccherini og Fabio Borini áttu báðir skot í tréverkið í seinni hálfleik.

Sunderland situr í 17. sæti með 35 stig, þremur stigum á undan Norwich, en bæði liðin eiga eftir að leika tvo leiki í deildinni.

Manchester United er eftir sem áður í 7. sæti með 60 stig.

Sigurmark Larssons má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×