Fótbolti

Erfitt kvöld fyrir Ólaf Inga og félaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason.
Ólafur Ingi Skúlason. Vísir/Getty
Ólafur Ingi Skúlason og félagar hans í Zulte-Waregem töpuðu 4-1 á útivelli á móti Standard Liège í kvöld í belgísku úrslitakeppninni í fótbolta.

Þetta var erfitt kvöld fyrir Zulte-Waregem liðið sem lenti 2-0 undir eftir tuttugu mínútur og missti síðan markvörðinn sinn Sammy Bossut af velli á 54. mínútu. Standard Liège skoraði þriðja markið sitt úr víti sem var dæmt á Sammy Bossut.

Thorgan Hazard minnkaði muninn í 3-1 úr vítaspyrnu á 68. mínútu en aðeins þremur mínútum síðar missti Zulte-Waregem annan mann af velli þegar Idrissa Sylla fékk sitt annað gula spjald.

Jelle Van Damme hjá Standard Liège fékk þá líka rautt og Zulte-Waregem var því áfram bara einum manni færri. Varamaðurinn Imoh Ezekiel kom Standard Liège í 4-1 á 81. mínútu og það urðu lokatölur leiksins. Áður en leikurinn kláraðist missti Zulte-Waregem hinsvegar þriðja manninn af velli þegar Sven Kums fékk beint rautt spjald.

Ólafur Ingi spilaði allan leikinn sem afturliggjandi miðjumaður.

Standard Liège komst með þessum sigri á toppinn og upp fyrir Eið Smára Guðjohnsen og félaga í Club Brugge sem eiga leik inni um helgina.

Zulte-Waregem hefur ekki náð að blanda sér fyrir alvöru í baráttuna um belgíska titilinn en liðið hefur aðeins náð í tvö stig út úr síðustu fjórum leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×