Enski boltinn

Januzaj fær betur borgað en Ronaldo og Messi á sama aldri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Adnan Januzaj fór illa með leikmenn Hull á Old Trafford í gærkvöldi.
Adnan Januzaj fór illa með leikmenn Hull á Old Trafford í gærkvöldi. Vísir/Getty
Dirk De Vriese, umboðsmaður AdnansJanuzaj, leikmanns Manchester United, segir í viðtali við belgíska dagblaðið Voetbal Magazine í dag að Paris Saint-Germain hafi reynt að fá piltinn unga áður en hann skrifaði undir nýjan langtíma samning við Manchester United.

Samningaviðræður United við Januzaj hófust í október eftir að þessi 19 ára gamli piltur hafði slegið í gegn í fyrstu leikjum sínum með liðinu og meðal annars tryggt því ótrúlegan 2-1 sigur á útivelli gegn Sunderland með tveimur mörkum.

Hefði Januzaj ekki samið við United átti samningur hans við félagið að renna út í sumar og hefði þá hvaða lið sem er getað fengið hann fyrir smá uppeldisbætur sem yrðu greiddar til United.

En Belginn samdi við Manchester United til fimm ára og fær nú betur borgað en tveir bestu knattspyrnumenn heims fengu á sama tíma á hans aldri.

„Eina sem ég get sagt er að hann er best launaði ungi leikmaður heims í dag. Hann fær meira borgað en Cristiano Ronaldo og Lionel Messi þegar þeir voru 19 ára. Það skiptir miklu máli og ég er stoltur af því,“ segir Dirk De Vriese.

Það eru samt ekki peningarnir sem Januzaj er að leitast eftir. Hann ákvað að vera áfram hjá United fótboltans vegna, segir umboðsmaður hans, en Belganum buðust mun hærri laun annarsstaðar.

„Við hefðum getað beðið lengur með að semja og virkilega séð hversu mikið United vildi halda honum og hvaða önnur lið höfðu áhuga. Öll stórliðin voru að banka á dyrnar, sérstaklega PSG. Fimm mínútum áður en við skrifuðum undir nýja samninginn hringdi einn ráðgjafi katarska formannsins og bauð fáránlega samning,“ segir Dirk De Vriese.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×