Íslenski boltinn

Þorvaldur Örlygsson til liðs við Pepsi-mörkin - Myndband

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Þetta verður vonandi bara skemmtilegt,“ segir Þorvaldur Örlygsson, þjálfari 1. deildarliðs HK, sem á mánudagskvöld mun setjast í stól spekings í Pepsi-mörkunum á Stöð 2 Sport. Hann mun segja skoðun sína á frammistöðu leikmanna í deildinni ásamt þeim Bjarnólfi Lárussyni, Hjörvari Hafliðasyni, Reyni Leóssyni og Tómasi Inga Tómassyni í sumar.

Þorvaldur, sem þjálfað hefur lið Fram í Pepsi-deild karla undanfarin ár, hefur oftar en einu sinni gefið lítið fyrir skoðanir spekinganna í setti eins og sjá má í myndbandinu að ofan. Nú eru aðstæðurnar breyttar og Þorvaldur kominn hinum megin við sjónvarpsvélarnar.

„Þetta er auðvitað tvennt ólíkt. Það er auðvelt að sitja uppi í stúku og gagnrýna en það eru oft margar hliðar á málunum.“

Þorvaldur lék lengi vel sem atvinnumaður á Englandi og á tugi landsleikja að baki fyrir Íslands hönd. Reynsla hans er mikil og fróðlegt að sjá hvað hann mun bjóða upp á í þáttunum.

„Eigum við ekki að bíða og sjá? Ég er ekki kominn til þess að móðga menn eða hrista upp í. Ég mun segja mína skoðun og vonandi verða ekki alltaf allir sammála,“ segir Þorvaldur léttur. Hann reiknar ekki með því að það verði erfiðara fyrir sig að gagnrýna sína fyrrum lærisveina í Fram eða ÍA en aðra leikmenn.

„Fótboltamenn verða að fá gagnrýni og auðvitað hrós líka. Þetta verður öðruvísi,“ segir Þorvaldur. Hann mun hafa nóg að gera á sunnudag og mánudag þegar 3. umferð Pepsi-deildar karla fer fram. Menn verða að undirbúa sig vel fyrir þáttinn.

„Maí er alltaf svolítið hraðmót þar sem mikið er um að vera. Menn eru að tala um vallaraðstæður, veður og annað. Svo eru liðin öll ýmist að vinna mótið eða að falla. Það er gaman að sjá hvernig menn höndla stressið.“

Vallaraðstæður hafa verið daprar í upphafi móts og fjöldi leikja farið fram á gervigrasi. Hvernig metur Þorvaldur framtíðina í vallarmálum á Íslandi?

„Vissir landshlutar geta gleymt grasvöllum á næstu árum,“ segir Þorvaldur. Nýju gervigrasvellirnir séu orðnir mjög góðir. Aðeins á suðurhorninu verði mögulega hægt að nota grasvelli næstu árin.

„Auðvitað viljum við gras en þetta er líka spurning um hvernig við nýtum mannvirkin,“ segir Þorvaldur. Félög séu með stórar stúkur og flotta umgjörð en svo sé ekki hægt að nýta vellina vegna veðurfars. Staðreyndin sé sú að gervigrasvellirnir í Garðabæ, Úlfarsárdal og Fífunni séu einfaldlega orðnir betri en grasvellirnir hér á landi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×