Innlent

„Nemendur voru svekktir, spældir og ómögulegir“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Jón Eggert segir ekki loku fyrir það skotið að nemendur fari sjálfir.
Jón Eggert segir ekki loku fyrir það skotið að nemendur fari sjálfir. Vísir/Óli Fjalar/Skessuhorn
„Nemendur voru svekktir, spældir og ómögulegir,“ segir Jón Eggert Bragason, skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga um nemendur sína sem ekki fá að fara í námsferð til Berlínar vegna kennaraverkfallsins sem enn stendur yfir.

Vísir sagði frá því í gær að námsferð rúmlega tuttugu nemenda væri í hættu vegna kennaraverkfallsins í gær. Málinu var skotið til verkfallsstjórnar Kennarasambands Íslands og fékkst niðurstaðan í dag.

„Við fengum þetta staðfest frá undanþágunefnd verkfallsstjórnar Kennarasambands Íslands í dag, þeir sögðu að til þess að fá undanþágu þyrfti þetta að vera neyðarástand, sem þetta er ekki,“ segir Jón Eggert.

Hann segir ferðina því ekki mega vera námsferð. „Það er klappað og klárt af hálfu skólans. Við sendum engan út og getum ekki borið ábyrgð á þeim sem fara,“ segir Jón Eggert.

Gerjun í gangi

Jón Eggert segir að ekki sé hægt að útiloka að nemendur fari í ferðina á eigin spýtur. Þeir eigi miðana sjálfir. „Það er ekki loku fyrir það skotið, nei. Ég veit að það er einhver gerjun í gangi og foreldrar eru að skoða þetta vel. Krakkarnir eru búnir að safna sjálf fyrir ferðinni. Skólinn keypti ekki miðana,“ útskýrir hann og heldur áfram:

„Hugmyndin að ferðinni kom að vissu leyti frá nemendum og þetta fór meira að segja af stað þannig að nemendur báðu kennarann að koma með sér í ferðina.“

Hann segir nemendur hafa hlakkað til að fara í ferðina. „Þeir vilja ólmir komast í ferðina.“


Tengdar fréttir

Berlínarferð hangir á bláþræði

„Það sem við erum að skoða á þessari stundu er að leita til verkfallsstjórnar um þetta og sækja um undanþágu," segir Jón Eggert Bragason, skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×