Innlent

„Menn með augljósum og óábyrgum hætti að misnota fjölmiðla og réttarkerfið“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Gunnar segir stjórn Krossins sitja án umboðs og hafa verið kosna á ólöglegum fundi.
Gunnar segir stjórn Krossins sitja án umboðs og hafa verið kosna á ólöglegum fundi. vísir/anton
Gunnar Þorsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður Krossins, segir herferð standa yfir gegn sér í aðdraganda aðalfundar safnaðarins. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag segir Gunnar að sér þyki merkilegt „hversu aðgengi þeirra sem ata aðra auri er greitt að ríkisfjölmiðlum“.

„Nú nýverið var ég borinn þungum sökum í Kastljósþætti Sjónvarpsins, þar sem fréttamaður fer með getsakir á hendur mér í löngu máli, þar sem hann fjallar um kröfu stjórnar Krossgatna um rannsókn á meintri vafasamri meðferð fjármuna Krossgatna,“ skrifar Gunnar í grein sinni, og bætir því við að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Kastljós fari í slíka vegferð gegn sér.

„Fyrir rúmum þremur árum gerði Kastljós slíkt hið sama, er það flutti mál kvenna sem fóru með fáránlegar ásakanir á hendur mér sem saksóknari vísaði síðan frá. Þar fóru Kastljósmenn rangt með og brutu á mér rétt.“

Gunnar segir fréttamann hafa látið þess getið að hann hafi sætt ákæru, reyndar af allt öðrum toga, og telji það upplýsandi fyrir fréttina. „Og gerir síðan samanburð sem er fáránlegur. En fréttamaðurinn gætir ekki jafnræðis og upplýsir ekki að ákærandi minn, Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður, hefur sætt kæru vegna þjófnaðar, fjárdráttar, fölsunar ársreikninga og fyrir að villa á sér heimildir.“

Hann segir stjórn Krossins sitja án umboðs og hafa verið kosna á ólöglegum fundi þar sem fjölmargar réttarreglur hafi verið brotnar.

„Nú er komið að aðalfundi samkvæmt samþykktum safnaðarins og ljóst er að þeir sem sitja fyrir á fleti bera mikinn kvíðboga fyrir þeim fundi og reyna með öllum tiltækum ráðum að halda sínu.“

Gunnar segir tímasetningu beiðninnar um rannsókn segja eiginlega allt sem segja þurfi.

„Menn hafa gripið til þeirra óyndisúrræða að sverta mig sem þeir mega og vega að mér með þeim hætti að mér verði ekki stætt á því að halda minni baráttu áfram fyrir breytingum í stjórn Krossins. Hér eru menn með augljósum og óábyrgum hætti að misnota fjölmiðla og réttarkerfið til að ná fram annarlegum markmiðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×