Innlent

Sjónum sérstaklega beint að fötluðum og konum af erlendum uppruna

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
VÍSIR/ANTON
Borgarstjórn samþykkti í gær að fara í sérstakt átak gegn heimilisofbeldi. Tillaga þess efnis var borin upp á fundi borgarstjórnar í gær af Sóley Tómasdóttur, borgarfulltrúa VG.

Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn lagði fram viðbótartillögu um að nauðsynlegt sé að beina sjónum sérstaklega að minnihlutahópum þegar farið verður í átak gegn ofbeldi. Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi fór fyrir tillögunni. Í henni kom fram að rannsóknir sýni þær niðurstöður að þriðjungur fatlaðra kvenna verði fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Þá sé það einnig staðreynd að fatlaðar konur búi við ofbeldi yfir lengri tíma en aðrir hópar. Áslaug fjallaði einnig um mikilvægi þess að skoða hvernig hægt er að hafa virkara eftirlit með þeim sem veikast standa því þeir leiti sér ekki hjálpar af sjálfsdáðum. „Nauðsynlegt er að nálgast lausnir fyrir þessa hópa með öðrum hætti en almennt gerist,“ sagði Áslaug. 

Sjónum verði einnig beint að konum af erlendum uppruna en þær eru stór hluti þeirra kvenna sem koma í Kvennaathvarfið.

Í sameiginlegri bókun borgarstjórnar kom fram að sjónum yrði sérstaklega beint að fötluðum konum og konum af erlendum uppruna. Reykjavíkurborg er reiðubúin til að kanna og innleiða allar þær aðferðir sem stuðlað geta að friðsælli borg og auknu öryggi borgarbúa.

Samþykktinni var vísað til borgarráðs sem vísar tillögunum til viðeigandi stofnana sem munu gera  verk- og kostnaðaráætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×