Innlent

Handtekin eftir að hafa stolið fartölvu og spjaldtölvu

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/vilhelm
Lögreglumenn á Selfossi handtóku tvo karlmenn og eina konu um níuleytið í morgun vegna gruns um að hafa stolið tösku með fartölvu og spjaldtölvu að verðmæti um 300.000 krónur.

Fólkið kom í morgun inn í verslun Samkaupa við Tryggvagötu á Selfossi þegar sást til þeirra grípa töskuna og yfirgefa verslunina.  Lögreglu var þegar í stað tilkynnt um atvikið. 

Um leið og fólkið sá til lögreglubíls tvístraðist hópurinn og hver hljóp í sína átt. 

Til karlmannanna náðist en þeir voru ekki með þýfið.  Skömmu síðar var konan gripin glóðvolg með tölvutöskuna. 

Eftir handtöku fólksins fundust yfir tíu grömm af hvítu efni sem að líkindum er amfetamín. 

Þremenningarnir gista fangageymslur á Selfossi og verða yfirheyrðir eftir hádegi. Annar karlmaðurinn var eftirlýstur þar sem hann á að taka út vararefsingu vegna óuppgerðar sektar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×