Innlent

Gjaldtökuhlið, skúrar og kaðlar við allar helstu náttúruperlur

Jakob Bjarnar skrifar
Aðalheiður Jóhannsdóttir hefur þungar áhyggjur af þróun mála í ferðaþjónustunni.
Aðalheiður Jóhannsdóttir hefur þungar áhyggjur af þróun mála í ferðaþjónustunni.
Landeigendur í Reykjahlíð ætla að fara að rukka ferðamenn um allt að átján hundruð krónur fyrir að fá að skoða náttúruperlur á svæðinu. Markaðsstofa Norðurlands hefur þungar áhyggjur af þessu og vill að komið verði í veg fyrir að aðgengi að landinu verði heft með þessum hætti.

Á heimasíðu svæðisins kemur fram að það á að kosta 800 krónur að skoða Dettifoss, jafn mikið að skoða hverina  og sömuleiðis 800 krónur fyrir að skoða Leirhnjúk og Kröflu saman. Þetta gerir 2,400 krónur, en ef allur pakkinn er keyptur er veittur afsláttur niður í 1800 krónur og ókeypis heimsókn í Víti í Mývatnssveit í kaupbæti. Gissur Sigurðsson fréttamaður ræddi við Arnheiði Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands í hádegisfréttum Bylgjunnar, en Aðalheiður hefur þungar áhyggjur af þróun mála. Sér reyndar fyrir sér að ófremdarástand blasi við.

„Já, við höldum að þetta sé fordæmi sem mun dreifast víðar. Og við vitum að það eru svipuð áform víða um land. Þetta mun skaða ferðaþjónustuna á þann veg að ferðamenn eru ekki að upplifa þessa gestrisni sem við viljum að þeir upplifi heldur koma þeir að gjaldtökuhliðum, skúrum, köðlum eða hvað við viljum kalla þetta nú í sumar, strax. Þetta er þegar farið að hafa þau áhrif að ferðasöluaðilar eru að taka þessi svæði út úr ferðum hjá sér, út úr kynningarefni hjá sér og þetta eru okkar helstu náttúruperlur, á Norðurlandi, sem við erum að tala um.

Á heimasíðunni segir að tekjurnar verði notaðar til að byggja upp veglegar þjónustumiðstöðvar með salernum, veitingaaðstöðu og fleiru, lagðir verði margir kílómetrar af göngustígum  og að byggðir verði útsýnispallar og gerð útskot á ýmsum stöðum við náttúruperlurnar. Þetta vekur upp spurningar um skipulag á svæðinu. Markaðsstofa Norðurlands hefur sent frá sér ályktun um málið.

„Þetta er allt skipulagsskylt og ekki komið í gegn. Eftir því sem ég best veit er ekki búið að teikna þetta upp ennþá og skipuleggja hvernig þetta á að vera. Ferðamálaráðherra hefur biðlað til landeigenda að bíða og sjá hvað kemur út úr náttúrupassafrumvarpinu. Ef að menn ætla að hafa tekjur af sínu landi þá ættu þeir að fjárfesta í þessari uppbyggingu og selja svo inn í þjónustu. Ekki selja aðgang að landinu. Það er í raun og veru það sem við viljum að þeir geri,“ segir Arnheiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×