Innlent

Forstjóri Isavia tjáir sig um kjaradeilur

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Isavia sér um rekstur allra flugvalla á Íslandi.
Isavia sér um rekstur allra flugvalla á Íslandi. Vísir/HAG
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia segir formann Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) fara með ósannindi. Þetta segir hann í ræðu sinni á aðalfundi Isavia í dag.

Í morgun birtist frétt í Fréttablaðinu og Vísi.is sem fjallaði um að Kristján Jóhannsson, formaður FFR, væri óánægður með harkaleg vinnubrögð yfirstjórnar Isavia. Vísaði hann í viðhorfskannanir sem gáfu í skyn að 57 prósent starfsmanna segjast óánægð í starfi sínu.

Björn Óli segir þessar tölur alrangar, og segir ámælisvert að farið sé með dylgjur opinberlega á meðan kjaraviðræðum stendur.

„Í fjölmiðlum undanfarna daga hefur framkvæmdastjóri Félags flugmálastarfsmanna ríkisins mikið rætt um meintan lélegan starfsanda hjá félaginu. Það er verulega ámælisvert að farið sé með slík ósannindi og dylgjur opinberlega í miðjum kjaraviðræðum, þegar nýleg könnun sýnir að yfir 90% starfsmanna Isavia eru ekki óánægðir í starfi sínu," segir Björn Óli.

„Sú stefnubreyting sem orðið hefur í samskiptum okkar við þetta stéttarfélag veldur mér verulegum áhyggjum. Það hafa komið fram opinberlega bæði ósannar og ósanngjarnar fullyrðingar frá framkvæmdastjóranum. Hingað til höfum við getað rætt málin og leyst við samningarborðið án upphrópana í fjölmiðlum.“

Eins og fram hefur komið hafa Félag flugmálastarfsmanna ríkisins, Stéttarfélag í almannaþjónustu og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna ekki náð samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning fyrir þá 400 meðlimi félaganna sem starfa hjá Isavia. Því eru boðaðar þrjár fimm klukkustunda vinnustöðvanir í apríl og síðan ótímabundið verkfall frá 30. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×