Innlent

„Mikilvægur þáttur í lýðræðisþróun Afganistan“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Tveir þriðju þeirra sem kusu voru karlmenn.
Tveir þriðju þeirra sem kusu voru karlmenn. Vísir/AP
Talið er að sjö milljónir Afgana hafi mætt á kjörstað í forsetakosningunum sem fóru fram þar í landi í dag. Kosningarnar eru sögulegar - þetta er í fyrsta sinn sem skipt verður um forseta í landinu með lýðræðislegum kosningum.

Kjörstöðum hefur verið lokað og er byrjað að telja atkvæði.

Mikill viðbúnaður var á kjörstöðum vegna yfirlýsinga Talibana um að þeir ætluðu að gera sitt til þess að spilla kosningunum. Talið er að þær yfirlýsingar, í bland við mikla rigningu, hafi haft áhrif á kjörsóknina. Samt sem áður var ánægja með kosningarnar og kjörsókn þessarar stríðshrjáðu þjóðar. Hamid Karzai fráfarandi forseti landsins sagði kosningarnar hafa verið árangursríkar.

Ahmad Yousuf Nouristani, stjórnarmaður Sjálfstæðrar eftirlitsnefndar með kosningunum, sagði þær hafa sent óvinum lýðræðisins skilaboð. „Óvinirnir voru sigraðir af fólkinu í landinu, ákveðni þess og heiðri.“

Tveir þriðju þeirra sem kusu í kosningunum voru karlmenn. Einhverjar fregnir bárust af því af skorti á pappír á einhverjum kjörstöðum.

Tíu prósent kjörstaða þóttu ekki uppfylla skilyrði um öryggi og var lokað áður en kosningum lauk. Þó nokkuð ofbeldi var víðsvegar um landið í tengslum við kosningarnar. Alls létust nítján manns í árásum sem taldar eru tengjast kosningunum, þar af þrír starfsmenn Sjálfstæðu eftirlitsnefndarinnar.

Tveir lögreglumenn voru handteknir fyrir kosningasvindl, þeim er gert að sök að hafa sett ólögleg atkvæði í kjörkassa. Einhverjir frambjóðendur segjast hræðast að fleiri kjörseðlar hafi verið í umferð en kjósendur á kjörskrá. Þetta þykir einhverjum benda til þess að komið hafi verið upp einskonar fölsuðum kjörstöðum, þar sem ólöglegum atkvæðum sé komið fyrir. Þetta hefur þó ekki verið sannað.

Hamid Karzai, sem setið hefur í tvö kjörtímabil, var með þeim fyrstu sem greiddu atkvæði en kjörstaðir opnuðu klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma.

Við það tækifæri sagði forsetinn fráfarandi, að dagurinn í dag markaði tímamót í sögu Afganistan og því ættu allir kosningabærir Afganar að greiða atkvæði.

„Þrátt fyrir kulda og rigningu og þrátt fyrir hugsanlega hryðjuverkaárás, mættu bræður okkar og systur á kjörstað. Þátttaka þeirra er mikilvægur þáttur í lýðræðisþróun Afganistan,“ sagði Hamid Karzai í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×