Innlent

Bæjarstjóri fagnar hugmynd um plexígler

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness, segist ekki óttast að sundlaugargestir horfi á fótboltaleikina.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness, segist ekki óttast að sundlaugargestir horfi á fótboltaleikina. Vísir/aðsent
Ekki stóð á viðbrögðum við frétt dagsins frá Akranesi, sem fjallar um hugmynd Jóns Pálma Pálssonar, rekstrarhagfræðings og fyrrum bæjarritara, um að rífa niður grindverk í kringum sundlaug bæjarins og setja plexígler í staðinn.

Jón Pálmi sendi framkvæmdaráði bæjarins fyrirspurn um málið, um miðjan febrúar. Hann fékk svör í gær um að verið væri að skoða málið. Jóni var tjáð að einn af annmörkum hugmyndarinnar tengdist knattspyrnuleikjum hjá ÍA. Sundlaugin er nálægt knattspyrnuvellinum og væri auðvelt að sjá leikina úr pottinum.

Fagnar þessari hugmynd

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness, segist ekki óttast að sundlaugargestir horfi á fótboltaleikina.

„Ég hef nákvæmlega engar áhyggjur af því að fólk geti séð leikina auk þess sem sundlaugargarðurinn er þannig staðsettur að fólk sæi bara í bakið á áhorfendum.“

Henni þyki þessi hugmynd í raun vera frábær. „Ég fagna þessari hugmynd. Þetta er það fyrsta sem ég sagði þegar ég kom í bæinn,“ útskýrir Regína.

Henni þykir útsýnið vera ótrúlega fallegt á svæðinu og vill kanna gaumgæfilega hvernig hægt sé að útfæra hugmynd Jóns Pálma.

„Við erum að vinna kostnaðarútfærslu og skoða málið ítarlega,“ segir Regína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×