Fótbolti

Harry Kewell leggur skóna á hilluna

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Harry Kewell tilkynnir að hann hætti í fótbolta á blaðamannafundi í Melbourne.
Harry Kewell tilkynnir að hann hætti í fótbolta á blaðamannafundi í Melbourne. Vísir/Getty
Ástralski knattspyrnumaðurinn Harry Kewell tilkynnti það á blaðamannafundi áðan að hann leggur skóna á hilluna þegar tímabilið í áströlsku A-deildinni lýkur í næsta mánuði.

Þessi 35 ára gamli leikmaður skrifaði undir eins árs samning við Melbourne Heart í von um að komast með ástralska landsliðinu á sitt þriðja heimsmeistaramót en hann hefur verið meira og minna meiddur á þessu tímabili.

„Þessu er erfitt að kyngja,“ sagði Kewell á blaðamannafundinum er hann tilkynnti að knattspyrnuferlinum væri að ljúka.

Á 17 ára löngum ferli spilaði Harry Kewell með Leeds, Liverpool, Galatasaray, Melbourne Victory, Al-Gharafa og nú síðast Melbourne Heart.

Hann var lykilmaður í Leeds-liðinu sem komst í undanúrslit Evrópukeppni félagsliða árið 2000 en hann var kjörinn besti ungi leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar sama ár.

Kewell var hluti af Leeds-liðinu sem komst alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar árið 2001 en hann var svo í byrjunarliði Liverpool í úrslitaleiknum 2005. Hann þurfti þó frá að hverfa í leiknum vegna meiðsla á 23. mínútu.

Harry Kewell á að baki 56 landsleiki en hann skoraði í þeim 17 mörk.

Harry Kewell var frábær hjá Leeds.Vísir/getty
Kewell í búningi Liverpool.Vísir/Getty
Harry Kewell í leik með Melbourne Heart.Vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×