Fótbolti

Þýskaland og Japan spila til úrslita í Algarve-bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simone Lauderhr fagnar hér jöfnunarmarki sínu í kvöld.
Simone Lauderhr fagnar hér jöfnunarmarki sínu í kvöld. Vísir/Getty
Þýskaland og Japan mætast í úrslitaleiknum í Algarve-bikarnum en bæði liðin unnu sína riðla. Þýskaland vann alla leiki sína í riðli Íslands þar á meðal 3-1 sigur á Noregi í lokaleiknum í dag.  Japan tryggði sér sæti í gulleiknum með sigri á Svíþjóð í úrslitaleik riðilsins.

Norska liðið fékk þannig ekkert stig í riðlinum og rak lestina en íslensku stelpurnar tryggðu sér annað sætið á eftir Þýskalandi með 1-0 sigri á Kína í kvöld.

Norsku stelpurnar fengu óskabyrjun þegar Lene Mykjåland skoraði úr vítaspyrnu strax á 2. mínútu en þær þýsku voru komnar yfir eftir tæpan hálftíma.

Simone Laudehr jafnaði leikinn á 12. mínútu og Anja Mittag kom þýska liðinu í 2-1 á 30. mínútu eftir skelfileg misstök norska markvarðarins Ingrid Hjelmseth. Mittag hafi lagt upp fyrra markið.

Dzsenifer Marozsán bætti við þriðja markinu á 55. mínútu en hún skoraði tvö mörk í sigrinum á Íslandi í fyrsta leik mótsins.  Þannig urðu síðan lokatölurnar.

Þýskaland mætir Japan í úrslitaleiknum á miðvikudaginn en þær norsku spila um ellefta sætið.

Aya Miyama tryggði Japan 2-1 sigur á Svíþjóð með marki úr vítaspyrnu mínútu fyrir leikslok en Linda Sembrant hafði komið Svíum yfir í lok fyrri hálfleiks. Japanska liðið jafnaði síðan metin í upphafi seinni hálfleiksins en sigurmarkið kom ekki fyrr en í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×