Innlent

Töluvert um stúta í borginni í nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Piltur var handtekinn í matvöruverslun í miðborginni rúmlega átta í gærkvöldi grunaður um þjófnað. Hann var ölvaður og var vistaður í fangageymslum á meðan ástand hans lagaðist. Þá var Barnvernd kynnt málið sem mun ræða við forsjáraðila piltsins.

Skömmu seinna barst lögreglunni tilkynningu um þrjá erlenda menn sem voru með vandræði í miðbænum. Þeir voru sagðir hrinda fólki og reyna að stofna til slagsmála. Mennirnir voru þó tveir þegar lögreglumenn komu á vettvang, þeir fóru ekki að fyrirmælum lögreglu og vildu ekki sýna þeim persónuskilríki.

Mennirnir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu, en þeir reyndust vera með skráningarnúmer af íslenskri bifreið í fórum sínum og eru grunaðir um að hafa stolið númerinu.

Þá var tilkynnt um líkamsárás á veitingahúsi við Laugarveg, þar sem maður hafi fengið glas í andlitið. Honum var ekið á slysadeild og málið er í rannsókn.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í nótt grunaðir um ölvun við akstur, sem og að aka eftir að hafa verið sviptir ökuréttindum. Annar sem stöðvaður var hafði einnig verið sviptur réttindum en var ekki ölvaður. Þá var 20 ára stúlka stöðvuð sem aldrei hafði fengið ökuréttindi.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir í nótt grunaðir um áfengisakstur, en einn var stöðvaður skömmu fyrir fimm í nótt eftir að hafa ekið yfir gatnamót á rauðu ljósi. Sá er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×