Fótbolti

Hallgrímur skoraði eftir þrjár mínútur en það dugði ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallgrímur Jónasson á æfingu með íslenska landsliðinu.
Hallgrímur Jónasson á æfingu með íslenska landsliðinu. Vísir/Pjetur
Hallgrímur Jónasson skoraði mark SönderjyskE í 1-2 grátlegu tapi á heimavelli á móti AGF í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Leikmenn AGF skoruðu sigurmarkið á fjórðu mínútu í uppbótartíma eftir að hafa jafnað metin eftir rúmlega klukkutíma leik. Varamaðurinn Jens Jönsson skoraði sigurmarkið.

Hallgrímur kom SönderjyskE í 1-0 eftir þriggja mínútna leik og liðið var með forystuna í 59 mínútur. Hallgrímur skallaði þá boltann í markið eftir að hafa verið fyrstur að átta sig þegar liðsfélagi hans Daniel Jensen skaut í slána úr vítaspyrnu.

Tapið þýðir að SönderjyskE er áfram í neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar tveimur stigum á eftir Vestsjælland sem er í sætinu fyrir ofan.

SönderjyskE vann 4-0 sigur í síðustu viku sem var fyrsti leikur liðsins eftir að deildin fór aftur af stað eftir vetrarfrí. Hallgrími og félögum tókst ekki að fylgja því eftir þrátt fyrir draumabyrjun í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×