Enski boltinn

Pellegrini: Leikmenn City lærðu af tapinu í bikarúrslitaleiknum í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, getur unnið sinn fyrsta titil með City í dag þegar liðið spilar til úrslita um enska deildarbikarinn á móti Sunderland á Wembley-leikvanginum í London.

Manchester City væri þá strax búið að gera betur en í fyrra þegar enginn titill kom í hús hjá félaginu en City-menn töpuðu þá mjög óvænt á móti Wigan í bikarúrslitaleiknum.

„Ég vil ekki tala um síðasta ár en ég er viss um að sá úrslitaleikur var lexía fyrir alla leikmenn liðsins," sagði Manuel Pellegrini á blaðamannafundi fyrir leikinn.

Markatala Manchester City í enska deildabikarnum á þessari leiktíð er 19-1 en liðið hefur unnið alla fimm leiki sína í keppninni.

„Það er yndislegt að spila úrslitaleik á Wembley og skelfilegt að tapa. Það er enginn að hugsa um hvernig fór í fyrra en það eru allir hundrað prósent einbeittir í að vinna þennan úrslitaleik. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vinna þennan titil," sagði Manuel Pellegrini.

Manchester City hefur ekki unnið enska deildarbikarinn í 38 ár eða síðan að liðið vann Newcastle United 2-1 í úrslitaleik árið 1976.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×