Enski boltinn

Poyet: Vil vinna fyrir Short

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
vísir/getty
Gus Poyet knattspyrnustjóri Sunderland vonast til að stýra liði sínu til sigurs í úrslitum enska deildarbikarsins í fótbolta í dag gegn Manchester City og tileinka sigrinum stjórnarformanni Sunderland, Ellis Short.

Poyet tók við af Paolo Di Canio sem stjóri Sunderland í október og nú aðeins fimm mánuðum síðar er liðið einum leik frá fyrsta titli sínum í 41 ár.

„Ég hef sagt það áður, stjórnarformaðurinn kom inn í klefann eftir sigurinn á Manchester United og fagnaði með okkur og sýndi okkur hvaða þýðingu þetta hefur fyrir hann,“ sagði Poyet.

„Hann kemur ekki oft niður en það var frábært að fá hann niður í klefa til okkar. Við viljum gera hann stoltan. Hann er velkominn inn í klefa ef við vinnum á Wembley.

„Hann var hugrakkur að ráða mig í starfið. Ég ímynda mér að flestir hefðu ráðið reyndari og eldri stjóra. Hann tók áhættu á vissan hátt.

„Það þurfti ákveðinn karakter til að koma inn og gera vissa hluti vegna þess hvernig leikmenn voru hér fyrir og hvað hafði gerst. Ég verð að þakka honum fyrir að treyst mér fyrir því,“ sagði Poyet.

Úrslitaleikur Manchester City og Sunderland verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 13:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×