Pistill: Louis van Gaal - sá útvaldi Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 3. mars 2014 15:30 Van Gaal fagnar með Bayern. vísir/getty „Ég er sá sem ég er; sjálfsöruggur, hrokafullur, ráðandi, heiðarlegur, vinnusamur og skapandi.“ Nei, þetta er ekki tilvitnun í Simon Cowell, heldur Louis van Gaal, þjálfara hollenska landsliðsins, og einn af fremstu þjálfurum síðari tíma. Ætli þessi sjálfslýsing sé ekki nokkuð nærri lagi. Van Gaal er margbrotinn persónuleiki, umdeildur, opinskár, einþykkur og þver. Það er bara ein leið sem er í boði hjá honum - hans leið. Og hún hefur mælst misvel fyrir í gegnum tíðina. Brasilíumaðurinn Giovanni, sem spilaði undir stjórn van Gaals hjá Barcelona, líkti honum t.a.m. einu sinni við Hitler – en hún skilar árangri. Til vitnis um það eru sjö deildarmeistaratitlar, þrír bikarmeistaratitlar, Meistaradeildartitill, sigur í Evrópukeppni félagsliða, tveir sigrar í Ofurbikar Evrópu og heimsmeistaratitill félagsliða með Ajax, Barcelona, AZ Alkmaar og Bayern München. Van Gaal, sem verður 63 ára í ágúst, hefur gefið það út að hann muni hætta með hollenska landsliðið að Heimsmeistaramótinu í Brasilíu loknu. „Það er öruggt að ég verð ekki við stjórnvölinn í undankeppni EM 2016,“ sagði Van Gaal nýlega. „Ég veit ekki hvert ég fer næst. Venjulega fer ég með lífeyririnn minn og sest að í Portúgal, en hugsanlega kemur ný áskorun. Ég hef áður sagt að sú áskorun ætti að vera að stjórna liði í ensku úrvalsdeildinni.“ Tottenham hefur verið nefnt í því samhengi; van Gaal var í sambandi við forráðamenn félagsins eftir brottvikningu André Villas-Boas í desember síðastliðnum og þótt Tim Sherwood hafi fengið átján mánaða samning er van Gaal enn þrálátlega orðaður við starfið hjá Spurs.Fagnað með Bastian Schweinsteiger.vísir/gettyÞetta er hins vegar ekki í fyrsta sinn sem van Gaal hefur verið orðaður við lið í ensku úrvalsdeildinni. Árið 2002 var hann, þá þjálfari hollenska landsliðsins, sterklega orðaður við Manchester United sem arftaki Sir Alex Ferguson, sem ætlaði, eins og frægt var, að hætta þá um vorið. Það er ekki vitað með vissu hver átti að taka við af Skotanum – Sven-Göran Eriksson og Fabio Capello voru einnig nefndir sem mögulegir eftirmenn hans – en Van Gaal greindi sjálfur frá því árið 2009 að honum hafi verið ætlað að taka við af Ferguson: „Þetta var fyrir HM 2002. Ég var í sambandi við Manchester United í gegnum Peter Kenyon [þáverandi stjórnarformann félagsins]. Mér var sagt að Ferguson ætlaði að hætta. Um leið og hann hætti störfum, átti ég að taka við. En á endanum vildi Ferguson ekki hætta.“ Kannski var Van Gaal sá útvaldi þá, en gæti hann verið sá útvaldi nú? Ferguson skildi eftir sig stærstu fótspor fótboltasögunnar þegar hann settist í helgan stein síðasta vor og líklega valdi hann rangan mann til að fylla í þau. David Moyes veldur ekki starfi knattspyrnustjóra Manchester United, það sjá allir sem vilja. Það er auðvitað grimmt að dæma mann sem hefur ekki verið ár í starfi, en þetta er grimmur bransi og Moyes hefur ekki gefið stuðningsmönnum United neina ástæðu til að trúa á hann og það sem hann er að gera.vísir/gettyÁrangurinn fyrir áramót var ekki góður, en hann var hátíð miðað það sem hefur gengið á á árinu 2014. Þetta var vont, en hefur bara versnað. Botninum var svo náð í Aþenu á þriðjudagskvöldið þar sem spilamennska Manchester United var nánast ómennsk; full af óöryggi, hugmyndasnauð, hæg og laus við alla ákefð og ástríðu. Þetta er ekki alveg að gera sig hjá þeim útvalda. Já, það eru holur í liði Manchester United, það vita allir. En þetta er samt að stærstum hluta sama lið og vann úrvalsdeildina í fyrra með yfirburðum. Jamie Carragher var eflaust ekki að ýkja þegar hann talaði um að Ferguson hefði verið tíu stiga virði á tímabili og eflaust leit liðið betur út undir hans stjórn en það hefði annars gert, en þetta lið á ekki að vera svona slakt. Moyes er að stýra því jafn illa og Ferguson stýrði því vel á síðustu leiktíð. Að horfa á United undir stjórn Moyes er eins og að horfa á Titanic ef Roland Emmerich hefði leikstýrt myndinni; þetta eru sömu leikendur á sama sviði, en leikstjórinn er bara miklu verri. Louis van Gaal er hæfur leikstjóri og ætti að vera betur í stakk búinn til að takast á við starf knattspyrnustjóra Manchester United en David Moyes. Sá síðarnefndi náði fínum árangri með Everton, en ekki framúrskarandi. Fjórða sætið og bikarúrslit teljast varla merkilegir hápunktar á ellefu ára ferli hjá stóru félagi. Titlar á ferilskránni: núll. Á þeim tíma sem Moyes var þjálfari Everton unnu Steve McClaren, Harry Redknapp, Roberto Martinez, Michael Laudrup og meira að segja Alex McLeish titla á Englandi. Það segir sitt.vísir/gettyVan Gaal hefur á hinn bóginn gert lítið annað en að vinna titla á sínum rúmlega tuttugu ára langa ferli. Hann hefur reynslu af því að stýra stærstu liðum Evrópu og vinna titla með þeim, auk þess sem hann hefur skýra sýn á leikinn og hvernig á að spila hann. Van Gaal er einn af helstu kennimeisturum Total Football skólans, en það var með þeim leikstíl sem hann lyfti Ajax aftur upp í hæstu hæðir í Evrópuboltanum. Undir stjórn van Gaals vann Ajax Meistaradeild Evrópu 1995 og var svo hársbreidd frá því að verja titilinn – sem engu liði hefur tekist frá stofnun Meistaradeildarinnar – ári síðar þegar liðið tapaði fyrir Juventus í úrslitaleik eftir vítaspyrnukeppni. Van Gaal yfirgaf Ajax sumarið 1997 og tók við liði Barcelona. Hann fylgdi þar með í fótspor landa sinna, Rinus Michels og Cruyff, en tengingin milli Ajax og Barcelona hefur verið sterk í gegnum árin. „Ástæðan fyrir því að þeir vildu fá mig 1997 var að þeir samsömuðu sig Ajax stílnum,“ sagði van Gaal í samtali við Sid Lowe í bókinni Fear and Loathing in La Liga: Barcelona vs Real Madrid. „Við vorum nýbúnir að vinna heimsmeistaratitil félagsliða og Nunez [þáverandi forseti Barcelona] var hrifinn af hugmyndum okkar. [...] Það lið sem var líkast Barcelona var Ajax. Áhrifin voru til staðar: Cruyff innleiddi þau, ég viðhélt þeim, Rijkaard fór sömu leið og svo kom Guardiola. Guardiola var leikmaður bæði hjá Cruyff og mér.“ Van Gaal gerði Guardiola að fyrirliða Barcelona þegar hann tók við liðinu og hafði mikil áhrif á hinn fróðleiksfúsa lærisvein sinn sem hafði hrifist mjög af Evrópumeistaraliði Ajax: „Ég varð orðlaus þegar ég sá Ajax-lið van Gaals spila,“ sagði Guardiola í ævisögu sinni. „Í mínum augum gerðu þeir allt sem fótboltalið átti að gera fullkomlega.“ Á tíma van Gaals hjá Barcelona vann liðið La Liga í tvígang, auk þess að vinna Copa del Rey og Ofurbikar Evrópu, en Hollendingurinn skildi einnig eftir sig varanleg spor hjá félaginu. Það var hann sem gaf Xavi, Carles Puyol, Víctor Valdés og Andrés Iniesta sín fyrstu tækifæri með aðalliði félagsins, en van Gaal hefur alltaf verið óhræddur að setja traust sitt á unga leikmenn. Evrópumeistaralið Ajax var að stærstum hluta skipað ungum og uppöldum leikmönnum og Thomas Müller, David Alaba og Holger Badstuber stigu sín fyrstu skref hjá Bayern München undir stjórn van Gaals. Þessar áherslur hans ættu að falla vel að hugmyndafræði Manchester United sem hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir að gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri. En þrátt fyrir góðan árangur með Barcelona eru afar skiptar skoðanir um stjórnartíð van Gaals hjá félaginu. Kemur þar margt til: samband hans við spænsku pressuna var stormasamt, hann lenti upp á kant við Rivaldo, hann þótti of strangur, hann var gagnrýndur fyrir fjölda hollenska leikmanna í liðinu, spænskan hans þótti ekki góð, sumum fannst hann ekki skilja katalónska kúltúrinn nógu vel og stuðningur hans við Josep Lluís Nunez, óvinsælan forseta liðsins, mæltist ekki vel fyrir. En kannski var helsta ástæðan fyrir óvinsældum van Gaals sú að hann var ekki Johan Cruyff, sem var og er í dýrlingatölu í Katalóníu. Van Gaal hætti hjá Barcelona í maí 2000 og næstu ár voru ekki gjöful. Honum mistókst að koma Hollandi á HM 2002, stoppaði svo aftur stutt við hjá Barcelona, var yfirmaður knattspyrnumála hjá Ajax til skamms tíma áður en hann tók við AZ Alkmaar sumarið 2005.vísir/gettyVan Gaal var fjögur tímabil hjá AZ en á því síðasta stýrði hann liðinu til Hollandsmeistaratitils. AZ varð þar með fyrsta liðið í 28 ár utan hinna þriggja stóru (Ajax, PSV og Feyenoord) til að vinna hollensku deildina. Van Gaal var svo ráðinn þjálfari Bayern München sumarið 2009 og þrátt fyrir erfiða byrjun á tímabilinu stóð liðið að lokum uppi sem tvöfaldur meistari í Þýskalandi. Bayern komst einnig í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þar sem það laut í lægra haldi fyrir Inter undir stjórn fyrrverandi lærisveins van Gaal, José Mourinho, sem hafði verið aðstoðarþjálfari Hollendingsins hjá Barcelona. Seinna tímabil van Gaals hjá Bayern var ekki jafn gott og honum var sagt upp störfum skömmu áður en tímabilinu 2010-11 lauk. Þrátt fyrir farsælan feril er van Gaal, eins og áður sagði, mjög umdeildur, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það þarf ekki að leita lengi til að finna neikvæð ummæli um manninn, en van Gaal hefur í gegnum tíðina verið ásakaður um flest allt sem neikvætt getur talist: ráðríki, einræðistilburði, geggjun, frekju, yfirgang, almenna fýlu, hroka og annað í þeim dúr. Og sumar af þessum ásökunum eiga rétt á sér. Van Gaal er strangur, harður, þver og getur verið afar erfiður og klaufalegur í samskiptum við fjölmiðla (hér má t.d. sjá óborganlega uppákomu í hollenskum sjónvarpsþætti). Hann er einnig mjög meðvitaður um eigið ágæti og hefur aldrei verið feiminn að flagga þeirri skoðun sinni. Þegar hann tók við Ajax 1991 óskaði hann stjórnarmönnum liðsins t.a.m. til hamingju með að hafa samið við besta þjálfara heims. Hann hafði aldrei þjálfað aðallið áður. Svo er ýmislegt sem bendir til þess að van Gaal sé ekki alveg í lagi. Fræg er sagan sem ítalski framherjinn Luca Toni sagði af því þegar Hollendingurinn leysti niður um sig fyrir framan leikmenn Bayern München til að sýna fram á að hann væri óhræddur við stórstjörnur liðsins. „Þjálfarinn vildi gera okkur ljóst fyrir að hann gæti sett hvaða leikmann sem er á bekkinn, það breytti engu hver það væri því hann væri, eins og hann sagði, með hreðjarnar til þess,“ sagði Toni. „Hann sýndi fram á það með bókstaflegum hætti. Ég hef aldrei upplifað annað eins, þetta var bilun.“ Það verður að koma í ljós hver næsti áfangastaður þessa umdeilda þjálfara verður, en Manchester United gæti gert margt heimskulegra en fá hann til starfa á Old Trafford. Hann hefur reynslu og þekkingu og veit hvernig á að vinna titla. Aðferðir hans eru ekki allra, en þær hafa skilað árangri í gegnum tíðina. Næsta starf sem Hollendingurinn tekur að sér verður væntanlega hans síðasta og væri ekki viðeigandi að ferlinum myndi ljúka á Old Trafford, þangað sem honum virtist einu sinni ætlað að fara. Van Gaal langar að starfa á Englandi og Manchester United vantar almennilegan þjálfara. Hver segir nei? Fótbolti Mest lesið Zlatan sendi sænsku táningsstelpunni skilaboð eftir vítaklúðrið Fótbolti Rannsaka Íslendingafélagið Burton Albion Enski boltinn Ætlar að vera lengi hjá Spurs: „Ég hef aldrei verið rekinn“ Fótbolti Sóknin enn vandamál: „Okkur skortir hraða“ Fótbolti Tíu Þjóðverjar tryggðu sæti í undanúrslitum eftir vító Fótbolti Samkomulag í höfn og Rashford á leið til Barcelona Fótbolti Segist viss um að Isak fari ekki fet Fótbolti „Svo ákveð ég alltaf að drulla mér ennþá lengra í burtu“ Fótbolti Scheffler með örugga forystu fyrir lokadaginn Golf Lars Lagerbäck: Það verður enginn hálshöggvinn fyrir þetta Fótbolti Fleiri fréttir Ætlar að vera lengi hjá Spurs: „Ég hef aldrei verið rekinn“ Rannsaka Íslendingafélagið Burton Albion Sóknin enn vandamál: „Okkur skortir hraða“ Segist viss um að Isak fari ekki fet Samkomulag í höfn og Rashford á leið til Barcelona Tíu Þjóðverjar tryggðu sæti í undanúrslitum eftir vító ÍR-ingar héldu út fyrir norðan Uppgjörið: KA - ÍA 2-0 | KA sendi KR í fallsæti Nýliðarnir halda áfram að styrkja sig „Stilltum sennilega upp sóknarsinnaðasta liði í sögu íslenskrar knattspyrnu“ „Við náttúrulega þurfum að skora mörk“ Ten Hag byrjar ekki vel hjá Leverkusen: „Mér er skítsama“ Uppgjörið: Breiðablik-Vestri 1-0 | Blikar náðu Víkingum á toppnum Daníel Tristan lagði upp mark í sigri Malmö Brotist inn hjá Platini og verðlaunin hurfu Lærisveinar Freys töpuðu fyrir KFUM liðinu Heimsmeistararnir stóðu heiðursvörð fyrir svissneska liðið í leikslok Rashford nálgast Barcelona „Svo ákveð ég alltaf að drulla mér ennþá lengra í burtu“ Zlatan sendi sænsku táningsstelpunni skilaboð eftir vítaklúðrið Dómarinn í úrslitaleik HM með kartöflu um hálsinn eftir að hann hitti Trump Hvar mun Mbeumo spila fyrir Man United? Hrókeringar í markmannsmálum Man City Cosic skaut Njarðvík á toppinn áður en hann fer til KR Spánverjar örugglega áfram þrátt fyrir vítaklúður Töpuðu stórt áður en þeir mæta Blikum í Meistaradeildinni Andri Fannar á leið frá Bologna enn á ný Hófu titilvörnina á naumum sigri Ince missir prófið og þarf að borga yfir milljón í sekt Afturelding að styrkja sig fyrir seinni hlutann Sjá meira
„Ég er sá sem ég er; sjálfsöruggur, hrokafullur, ráðandi, heiðarlegur, vinnusamur og skapandi.“ Nei, þetta er ekki tilvitnun í Simon Cowell, heldur Louis van Gaal, þjálfara hollenska landsliðsins, og einn af fremstu þjálfurum síðari tíma. Ætli þessi sjálfslýsing sé ekki nokkuð nærri lagi. Van Gaal er margbrotinn persónuleiki, umdeildur, opinskár, einþykkur og þver. Það er bara ein leið sem er í boði hjá honum - hans leið. Og hún hefur mælst misvel fyrir í gegnum tíðina. Brasilíumaðurinn Giovanni, sem spilaði undir stjórn van Gaals hjá Barcelona, líkti honum t.a.m. einu sinni við Hitler – en hún skilar árangri. Til vitnis um það eru sjö deildarmeistaratitlar, þrír bikarmeistaratitlar, Meistaradeildartitill, sigur í Evrópukeppni félagsliða, tveir sigrar í Ofurbikar Evrópu og heimsmeistaratitill félagsliða með Ajax, Barcelona, AZ Alkmaar og Bayern München. Van Gaal, sem verður 63 ára í ágúst, hefur gefið það út að hann muni hætta með hollenska landsliðið að Heimsmeistaramótinu í Brasilíu loknu. „Það er öruggt að ég verð ekki við stjórnvölinn í undankeppni EM 2016,“ sagði Van Gaal nýlega. „Ég veit ekki hvert ég fer næst. Venjulega fer ég með lífeyririnn minn og sest að í Portúgal, en hugsanlega kemur ný áskorun. Ég hef áður sagt að sú áskorun ætti að vera að stjórna liði í ensku úrvalsdeildinni.“ Tottenham hefur verið nefnt í því samhengi; van Gaal var í sambandi við forráðamenn félagsins eftir brottvikningu André Villas-Boas í desember síðastliðnum og þótt Tim Sherwood hafi fengið átján mánaða samning er van Gaal enn þrálátlega orðaður við starfið hjá Spurs.Fagnað með Bastian Schweinsteiger.vísir/gettyÞetta er hins vegar ekki í fyrsta sinn sem van Gaal hefur verið orðaður við lið í ensku úrvalsdeildinni. Árið 2002 var hann, þá þjálfari hollenska landsliðsins, sterklega orðaður við Manchester United sem arftaki Sir Alex Ferguson, sem ætlaði, eins og frægt var, að hætta þá um vorið. Það er ekki vitað með vissu hver átti að taka við af Skotanum – Sven-Göran Eriksson og Fabio Capello voru einnig nefndir sem mögulegir eftirmenn hans – en Van Gaal greindi sjálfur frá því árið 2009 að honum hafi verið ætlað að taka við af Ferguson: „Þetta var fyrir HM 2002. Ég var í sambandi við Manchester United í gegnum Peter Kenyon [þáverandi stjórnarformann félagsins]. Mér var sagt að Ferguson ætlaði að hætta. Um leið og hann hætti störfum, átti ég að taka við. En á endanum vildi Ferguson ekki hætta.“ Kannski var Van Gaal sá útvaldi þá, en gæti hann verið sá útvaldi nú? Ferguson skildi eftir sig stærstu fótspor fótboltasögunnar þegar hann settist í helgan stein síðasta vor og líklega valdi hann rangan mann til að fylla í þau. David Moyes veldur ekki starfi knattspyrnustjóra Manchester United, það sjá allir sem vilja. Það er auðvitað grimmt að dæma mann sem hefur ekki verið ár í starfi, en þetta er grimmur bransi og Moyes hefur ekki gefið stuðningsmönnum United neina ástæðu til að trúa á hann og það sem hann er að gera.vísir/gettyÁrangurinn fyrir áramót var ekki góður, en hann var hátíð miðað það sem hefur gengið á á árinu 2014. Þetta var vont, en hefur bara versnað. Botninum var svo náð í Aþenu á þriðjudagskvöldið þar sem spilamennska Manchester United var nánast ómennsk; full af óöryggi, hugmyndasnauð, hæg og laus við alla ákefð og ástríðu. Þetta er ekki alveg að gera sig hjá þeim útvalda. Já, það eru holur í liði Manchester United, það vita allir. En þetta er samt að stærstum hluta sama lið og vann úrvalsdeildina í fyrra með yfirburðum. Jamie Carragher var eflaust ekki að ýkja þegar hann talaði um að Ferguson hefði verið tíu stiga virði á tímabili og eflaust leit liðið betur út undir hans stjórn en það hefði annars gert, en þetta lið á ekki að vera svona slakt. Moyes er að stýra því jafn illa og Ferguson stýrði því vel á síðustu leiktíð. Að horfa á United undir stjórn Moyes er eins og að horfa á Titanic ef Roland Emmerich hefði leikstýrt myndinni; þetta eru sömu leikendur á sama sviði, en leikstjórinn er bara miklu verri. Louis van Gaal er hæfur leikstjóri og ætti að vera betur í stakk búinn til að takast á við starf knattspyrnustjóra Manchester United en David Moyes. Sá síðarnefndi náði fínum árangri með Everton, en ekki framúrskarandi. Fjórða sætið og bikarúrslit teljast varla merkilegir hápunktar á ellefu ára ferli hjá stóru félagi. Titlar á ferilskránni: núll. Á þeim tíma sem Moyes var þjálfari Everton unnu Steve McClaren, Harry Redknapp, Roberto Martinez, Michael Laudrup og meira að segja Alex McLeish titla á Englandi. Það segir sitt.vísir/gettyVan Gaal hefur á hinn bóginn gert lítið annað en að vinna titla á sínum rúmlega tuttugu ára langa ferli. Hann hefur reynslu af því að stýra stærstu liðum Evrópu og vinna titla með þeim, auk þess sem hann hefur skýra sýn á leikinn og hvernig á að spila hann. Van Gaal er einn af helstu kennimeisturum Total Football skólans, en það var með þeim leikstíl sem hann lyfti Ajax aftur upp í hæstu hæðir í Evrópuboltanum. Undir stjórn van Gaals vann Ajax Meistaradeild Evrópu 1995 og var svo hársbreidd frá því að verja titilinn – sem engu liði hefur tekist frá stofnun Meistaradeildarinnar – ári síðar þegar liðið tapaði fyrir Juventus í úrslitaleik eftir vítaspyrnukeppni. Van Gaal yfirgaf Ajax sumarið 1997 og tók við liði Barcelona. Hann fylgdi þar með í fótspor landa sinna, Rinus Michels og Cruyff, en tengingin milli Ajax og Barcelona hefur verið sterk í gegnum árin. „Ástæðan fyrir því að þeir vildu fá mig 1997 var að þeir samsömuðu sig Ajax stílnum,“ sagði van Gaal í samtali við Sid Lowe í bókinni Fear and Loathing in La Liga: Barcelona vs Real Madrid. „Við vorum nýbúnir að vinna heimsmeistaratitil félagsliða og Nunez [þáverandi forseti Barcelona] var hrifinn af hugmyndum okkar. [...] Það lið sem var líkast Barcelona var Ajax. Áhrifin voru til staðar: Cruyff innleiddi þau, ég viðhélt þeim, Rijkaard fór sömu leið og svo kom Guardiola. Guardiola var leikmaður bæði hjá Cruyff og mér.“ Van Gaal gerði Guardiola að fyrirliða Barcelona þegar hann tók við liðinu og hafði mikil áhrif á hinn fróðleiksfúsa lærisvein sinn sem hafði hrifist mjög af Evrópumeistaraliði Ajax: „Ég varð orðlaus þegar ég sá Ajax-lið van Gaals spila,“ sagði Guardiola í ævisögu sinni. „Í mínum augum gerðu þeir allt sem fótboltalið átti að gera fullkomlega.“ Á tíma van Gaals hjá Barcelona vann liðið La Liga í tvígang, auk þess að vinna Copa del Rey og Ofurbikar Evrópu, en Hollendingurinn skildi einnig eftir sig varanleg spor hjá félaginu. Það var hann sem gaf Xavi, Carles Puyol, Víctor Valdés og Andrés Iniesta sín fyrstu tækifæri með aðalliði félagsins, en van Gaal hefur alltaf verið óhræddur að setja traust sitt á unga leikmenn. Evrópumeistaralið Ajax var að stærstum hluta skipað ungum og uppöldum leikmönnum og Thomas Müller, David Alaba og Holger Badstuber stigu sín fyrstu skref hjá Bayern München undir stjórn van Gaals. Þessar áherslur hans ættu að falla vel að hugmyndafræði Manchester United sem hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir að gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri. En þrátt fyrir góðan árangur með Barcelona eru afar skiptar skoðanir um stjórnartíð van Gaals hjá félaginu. Kemur þar margt til: samband hans við spænsku pressuna var stormasamt, hann lenti upp á kant við Rivaldo, hann þótti of strangur, hann var gagnrýndur fyrir fjölda hollenska leikmanna í liðinu, spænskan hans þótti ekki góð, sumum fannst hann ekki skilja katalónska kúltúrinn nógu vel og stuðningur hans við Josep Lluís Nunez, óvinsælan forseta liðsins, mæltist ekki vel fyrir. En kannski var helsta ástæðan fyrir óvinsældum van Gaals sú að hann var ekki Johan Cruyff, sem var og er í dýrlingatölu í Katalóníu. Van Gaal hætti hjá Barcelona í maí 2000 og næstu ár voru ekki gjöful. Honum mistókst að koma Hollandi á HM 2002, stoppaði svo aftur stutt við hjá Barcelona, var yfirmaður knattspyrnumála hjá Ajax til skamms tíma áður en hann tók við AZ Alkmaar sumarið 2005.vísir/gettyVan Gaal var fjögur tímabil hjá AZ en á því síðasta stýrði hann liðinu til Hollandsmeistaratitils. AZ varð þar með fyrsta liðið í 28 ár utan hinna þriggja stóru (Ajax, PSV og Feyenoord) til að vinna hollensku deildina. Van Gaal var svo ráðinn þjálfari Bayern München sumarið 2009 og þrátt fyrir erfiða byrjun á tímabilinu stóð liðið að lokum uppi sem tvöfaldur meistari í Þýskalandi. Bayern komst einnig í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þar sem það laut í lægra haldi fyrir Inter undir stjórn fyrrverandi lærisveins van Gaal, José Mourinho, sem hafði verið aðstoðarþjálfari Hollendingsins hjá Barcelona. Seinna tímabil van Gaals hjá Bayern var ekki jafn gott og honum var sagt upp störfum skömmu áður en tímabilinu 2010-11 lauk. Þrátt fyrir farsælan feril er van Gaal, eins og áður sagði, mjög umdeildur, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það þarf ekki að leita lengi til að finna neikvæð ummæli um manninn, en van Gaal hefur í gegnum tíðina verið ásakaður um flest allt sem neikvætt getur talist: ráðríki, einræðistilburði, geggjun, frekju, yfirgang, almenna fýlu, hroka og annað í þeim dúr. Og sumar af þessum ásökunum eiga rétt á sér. Van Gaal er strangur, harður, þver og getur verið afar erfiður og klaufalegur í samskiptum við fjölmiðla (hér má t.d. sjá óborganlega uppákomu í hollenskum sjónvarpsþætti). Hann er einnig mjög meðvitaður um eigið ágæti og hefur aldrei verið feiminn að flagga þeirri skoðun sinni. Þegar hann tók við Ajax 1991 óskaði hann stjórnarmönnum liðsins t.a.m. til hamingju með að hafa samið við besta þjálfara heims. Hann hafði aldrei þjálfað aðallið áður. Svo er ýmislegt sem bendir til þess að van Gaal sé ekki alveg í lagi. Fræg er sagan sem ítalski framherjinn Luca Toni sagði af því þegar Hollendingurinn leysti niður um sig fyrir framan leikmenn Bayern München til að sýna fram á að hann væri óhræddur við stórstjörnur liðsins. „Þjálfarinn vildi gera okkur ljóst fyrir að hann gæti sett hvaða leikmann sem er á bekkinn, það breytti engu hver það væri því hann væri, eins og hann sagði, með hreðjarnar til þess,“ sagði Toni. „Hann sýndi fram á það með bókstaflegum hætti. Ég hef aldrei upplifað annað eins, þetta var bilun.“ Það verður að koma í ljós hver næsti áfangastaður þessa umdeilda þjálfara verður, en Manchester United gæti gert margt heimskulegra en fá hann til starfa á Old Trafford. Hann hefur reynslu og þekkingu og veit hvernig á að vinna titla. Aðferðir hans eru ekki allra, en þær hafa skilað árangri í gegnum tíðina. Næsta starf sem Hollendingurinn tekur að sér verður væntanlega hans síðasta og væri ekki viðeigandi að ferlinum myndi ljúka á Old Trafford, þangað sem honum virtist einu sinni ætlað að fara. Van Gaal langar að starfa á Englandi og Manchester United vantar almennilegan þjálfara. Hver segir nei?
Fótbolti Mest lesið Zlatan sendi sænsku táningsstelpunni skilaboð eftir vítaklúðrið Fótbolti Rannsaka Íslendingafélagið Burton Albion Enski boltinn Ætlar að vera lengi hjá Spurs: „Ég hef aldrei verið rekinn“ Fótbolti Sóknin enn vandamál: „Okkur skortir hraða“ Fótbolti Tíu Þjóðverjar tryggðu sæti í undanúrslitum eftir vító Fótbolti Samkomulag í höfn og Rashford á leið til Barcelona Fótbolti Segist viss um að Isak fari ekki fet Fótbolti „Svo ákveð ég alltaf að drulla mér ennþá lengra í burtu“ Fótbolti Scheffler með örugga forystu fyrir lokadaginn Golf Lars Lagerbäck: Það verður enginn hálshöggvinn fyrir þetta Fótbolti Fleiri fréttir Ætlar að vera lengi hjá Spurs: „Ég hef aldrei verið rekinn“ Rannsaka Íslendingafélagið Burton Albion Sóknin enn vandamál: „Okkur skortir hraða“ Segist viss um að Isak fari ekki fet Samkomulag í höfn og Rashford á leið til Barcelona Tíu Þjóðverjar tryggðu sæti í undanúrslitum eftir vító ÍR-ingar héldu út fyrir norðan Uppgjörið: KA - ÍA 2-0 | KA sendi KR í fallsæti Nýliðarnir halda áfram að styrkja sig „Stilltum sennilega upp sóknarsinnaðasta liði í sögu íslenskrar knattspyrnu“ „Við náttúrulega þurfum að skora mörk“ Ten Hag byrjar ekki vel hjá Leverkusen: „Mér er skítsama“ Uppgjörið: Breiðablik-Vestri 1-0 | Blikar náðu Víkingum á toppnum Daníel Tristan lagði upp mark í sigri Malmö Brotist inn hjá Platini og verðlaunin hurfu Lærisveinar Freys töpuðu fyrir KFUM liðinu Heimsmeistararnir stóðu heiðursvörð fyrir svissneska liðið í leikslok Rashford nálgast Barcelona „Svo ákveð ég alltaf að drulla mér ennþá lengra í burtu“ Zlatan sendi sænsku táningsstelpunni skilaboð eftir vítaklúðrið Dómarinn í úrslitaleik HM með kartöflu um hálsinn eftir að hann hitti Trump Hvar mun Mbeumo spila fyrir Man United? Hrókeringar í markmannsmálum Man City Cosic skaut Njarðvík á toppinn áður en hann fer til KR Spánverjar örugglega áfram þrátt fyrir vítaklúður Töpuðu stórt áður en þeir mæta Blikum í Meistaradeildinni Andri Fannar á leið frá Bologna enn á ný Hófu titilvörnina á naumum sigri Ince missir prófið og þarf að borga yfir milljón í sekt Afturelding að styrkja sig fyrir seinni hlutann Sjá meira