Fótbolti

Pedro tryggði Spánverjum sigur á Ítölum - Ronaldo með tvö mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pedro Rodríguez.
Pedro Rodríguez. Vísir/AP
Pedro Rodríguez skoraði sigurmark Spánverja þegar liðið vann 1-0 sigur á nágrönnum sínum frá Ítalíu í kvöld í vináttulandsleik á Vicente Calderón leikvanginum í Madríd. Cristiano Ronaldo var líka á skotskónum í 5-1 stórsigri Portúgala á HM-liði Kamerún.

Pedro skoraði eina markið á 64. mínútu þegar Spánverjar unnu Ítali en liðsfélagi Pedro hjá Barcelona, Andrés Iniesta, átti laglega hælspyrnu í aðdraganda marksins.

Diego Costa, framherji Atletico Madrid, lék sinn fyrsta landsleik og það á heimavelli en hann náði ekki að skora.

Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk í 5-1 sigri Portúgala á Kamerún í vináttulandsleik í Portúgal.

Cristiano Ronaldo skoraði fyrsta markið á 21. mínútu en Vincent Aboubakar jafnaði metin fyrir hlé.

Raul Meireles, Fábio Coentrao og Edinho komu Portúgölum í 4-1 í seinni hálfleik áður en Cristiano Ronaldo innsiglaði sigurinn með sínu öðru marki sjö mínútum fyrir leikslok.

Cristiano Ronaldo hefur þar með skorað 49 mörk í 110 landsleikjum fyrir portúgalska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×