Enski boltinn

De Jong vill sýna hvað hann getur - ekki skorað deildarmark í 320 daga

Alan Pardew fékk loksins De Jong til Newcastle en nú þarf hann að fara skora mörk.
Alan Pardew fékk loksins De Jong til Newcastle en nú þarf hann að fara skora mörk. Vísir/Getty
Hollenski framherjinn LuukdeJong vill ólmur verðlauna Newcastle með mörkum fyrir að hafa losað sig úr erfiðri stöðu í Þýskalandi.

De Jong raðaði inn mörkum fyrir Twente í Hollandi tímabilið 2011/2012 og vildi Newcastle kaupa hann um sumarið. Það tapaði aftur á móti baráttunni fyrir þýska liðinu Borussia Mönchengladbach sem borgaði 15 milljónir Evra fyrir framherjann.

Hollendingurinn átti erfitt uppdráttar á sinni fyrstu leiktíð í Þýskalandi og skoraði aðeins sex mörk í 23 leikjum. Hann missti sæti sitt í byrjunarliðinu síðasta sumar og kom þrettán sinnum inn á sem varamaður á fyrri hluta leiktíðar, án þess þó að skora.

Hann skoraði síðast deildarmark 6. apríl í fyrra þegar hann tryggði Gladbach 1-0 sigur á Greuther Furth í þýsku 1. deildinni. Það eru því liðnir 320 dagar síðan hann skoraði deildarmark. De Jong til varnar fékk hann fá tækifæri til að skora fyrir jól því hann kom meira og minna inn á þegar aðeins nokkrar mínútur voru til leiksloka.

Þrátt fyrir markaleysið nýtti Newcastle tækifærið og fékk hann til sín á láni í janúar en hann er nú búinn að koma við sögu í þremur leikjum í úrvalsdeildinni án þess að skora. Eitthvað sem ætti ekki að koma á óvart miðað við árangur hans undanfarin misseri.

„Ég vil bara sýna hvað ég get, skora mörk og njóta velgengni aftur. Þess vegna kom ég til Newcastle. Fyrri hluti leiktíðarinnar var erfiður því ég spilaði ekki mikið,“ segir De Jong í viðtali við Newcastle Chronicle.

„Ég er mjög ánægður með að fá tækifæri til að spila hérna því Newcastle er félag sem virkilega vildi á mig, alveg frá því ég var að spila með Twente. Þetta er stórt félag og ég nýt verunnar hér. Mér gekk vel að skora í Hollandi og vonandi get ég tekið upp þráðinn hér,“ segir Luuk de Jong.


Tengdar fréttir

De Jong á leið til Newcastle

Svo virðist sem að Luuk de Jong, leikmaður Gladbach í Þýskalandi, verði lánaður til Newcastle út leiktíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×