Innlent

Tveir menn dæmdir fyrir manndráp af gáleysi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
VÍSIR/GVA
Tveir karlmenn voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti í dag í sama máli. Bílstjóri vörubifreiðar sem lenti i árekstri 27. desember árið 2010 var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fyrir manndráp af gáleysi og umferðarlagabrot.

Vörubifreiðin var með vélavagn aftan í. Vagninn fylgdi ekki bifreiðinni og fór yfir á hinn vegarhelminginn og rakst utan í bifreið sem kom akandi á móti. Við áreksturinn losnaði farmur af vagninum og fór í hina bifreiðina og lenti á ökumanni hennar sem lést næst samstundis.

Eigandi og stjórnandi fyrirtækisins sem átti vagninn var dæmdur fyrir hlutdeild í brotum vörubílstjórans og fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm.

Bílstjórinn sýndi ekki nægilega aðgæslu og vagninn hentaði ekki til flutninga á þeim farmi sem hann flutti að því er fram kemur í dómi Hæstaréttar. Að auki var vagninn bremsulítill eða bremsulaus og á misstórum dekkjum sem voru með mismunandi loftþrýstingi. Jafnframt kom fram að eigandi fyrirtækisins hefði átt að ganga úr skugga um hvernig dekk hefðu verið undir vagninum en honum hefði verið kunnugt um það að dekkin hefðu ekki öll verið af sömu stærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×