Innlent

Fráleitt að flytja pólitískan ágreining inn í Seðlabankann

Heimir Már Pétursson skrifar


Formaður Samfylkingarinnar segir fráleitt að endurvekja það ástand að pólitískur ágreiningur sé fluttur inn í Seðlabankann. Formaður Vinstri grænna hefur óskað eftir umræðum á Alþingi um framtíð Seðlabankans og vonar að faglegri skipan bankastjóra verði ekki fórnað við breytingar á bankanum.

Fjármálaráðherra gagnrýnir hvernig staðið var að breytingum á Seðlabankanum í tíð fyrri ríkisstjórnar árið 2009, sem gerðar hafi verið án samráðs við stjórnarandstöðu. En þær breytingar leiddu m.a. til þess að Davíð Oddsson hvarf úr stóli seðlabankastjóra.

Formaður Vinstri grænna segir að lögin árið 2009 hafi verið sett á miklum umbrotatímum.

„Þá voru t.a.m. settar í lög kröfur um ákveðna faglega hæfni seðlabankastjóra. Við vitum ekki nákvæmlega í hverju breytingarnar sem eru boðaðar felast. En ég ætla að vona að þær feli ekki í sér að það verði horfið frá þeim faglegu kröfum sem þá voru settar. Sá seðlabankastjóri sem nú er, og aðstoðarseðlabankastjóri, voru ráðnir eftir slíkt ferli þar sem þeir voru hreinlega metnir hæfastir,“ segir Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.

„En þetta kemur hins vegar mjög illilega í kjölfarið á hnífilyrðum forsætisráðherra í garð Seðlabankans í síðustu viku. Það auðvitað vekur manni áhyggjur af því hvað raunverulega stendur til að gera. En það það er alveg ljóst af hálfu forsætisráðherra að það er enginn áhugi á því að standa vörð um sjálfstæðan Seðlabanka,“ segir Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar.

„Ég hef nú óskað eftir sérstakri umræðu við fjármála- og efnahagsráðherra um það hver hans sýn er í þessum málum. En það að staða seðlabankastjóra sé auglýst núna nokkrum dögum eftir að forsætisráðherra lætur mjög þung orð falla í garð seðlabankans og yfirstjórnar hans  - auðvitað hefur maður áhyggjur hvort þetta geti verið einhver undirbúningur að aðgerðum sem ógni sjálfstæði Seðlabankans,“ segir Katrín.

„Við erum andvíg því að flytja pólitískan ágreining inn í Seðlabankann og erum andvíg því að gera Seðlabankann að tæki í pólitískum leik. Það er vont fyrir þjóðina, það hefur verið skaðlegt fyrir þjóðina hingað til og það er algerlega fráleitt að endurvekja það,“ segir Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×