Enski boltinn

Norwich vann mikilvægan sigur

Tottenham missti af þremur mikilvægum stigum þegar liðið tapaði 1-0 gegn Norwich á Carrow Road í ensku úrvalsdeildinni í dag. Tottenham er sex stigum frá sæti í Meistaradeildinni eftir leiki dagsins.

Tottenham mátti illa við að missa af stigum þar sem liðin í kring um þá unnu öll sína leiki um helgina. Liðinu hefur gengið vel undanfarið og var tapið í dag aðeins annað tap liðsins í deildinni frá því að Tim Sherwood tók við taumunum.

Robert Snodgrass skoraði eina mark leiksins þegar hann lagði boltann snyrtilega í fjærhornið framhjá Hugo Lloris í marki Tottenham. Tottenham sendi Roberto Soldado inná í seinni hálfleik í von um jöfnunarmark og fékk hann besta færi liðsins en skot hans hafnaði í hliðarnetinu.

Leiknum lauk því með 1-0 sigri Norwich og er þetta aðeins annar sigur liðsins frá því í upphafi desember. Kanarífuglarnir sitja í fjórtánda sæti eftir leikinn, fjórum stigum fyrir ofan Sunderland sem eru í fallsæti.

Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í leikmannahóp Tottenham í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×