Enski boltinn

Gerrard enn í myndinni fyrir EM

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Steven Gerrard og Roy Hodgson í leik Englands gegn Þýskalandi
Steven Gerrard og Roy Hodgson í leik Englands gegn Þýskalandi Vísir/Getty
Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins, er vongóður að Steven Gerrard, fyrirliði landliðsins, muni halda áfram að spila með liðinu eftir Heimsmeistaramótið í sumar.

Gerrard verður 34 ára þegar mótið hefst í sumar hefur spilað 108 leiki fyrir enska landsliðið en viðurkenndi að hann íhugi að hætta að spila með liðinu eftir mótið.

Gerrard sem hefur tekið þátt í sex stórmótum á ferli sínum hefur undanfarið spilað aftar á vellinum með félagsliði sínu, Liverpool og telur Hodgson að það gæti framlengt ferli Gerrard. Haldi hann áfram að spila sé hann enn inn í myndinni hjá landsliðinu.

„Þetta er allt undir honum komið, hann yrði 36 ára þegar næsta stórmót fer fram. Miðað við hvernig hann hefur verið að spila er hann enn í myndinni, það hefur ekkert hægst á honum þrátt fyrir aldurinn."

„Undanfarið hefur hann verið að spila sem djúpur miðjumaður og hefur tekist það mjög vel. Þrátt fyrir að vera kominn aftar á völlinn er hann ennþá ógnandi með hlaupunum sínum inn í teiginn. Hann er frábær alhliða leikmaður og tekur fólk oft ekki eftir því hversu mikið hann vinnur inn á vellinum," sagði Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×