Innlent

Matjurtagarðar og bættar samgöngur

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ásýnd borgarinnar kemur til með að breytast töluvert á næstu árum en nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík var undirritað í gær. Deiliskipulagið hefur verið í vinnslu frá árinu 2006 eða í átta ár.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 var samþykkt í borgarstjórn 26. nóvember 2013. Í janúar gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við nokkur atriði í aðalskipulaginu sem vörðuðu orðalag fyrirvara vegna landnotkunar í Vatnsmýri. Eftir lagfæringar var það svo undirritað með viðhöfn í Höfða í gær.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segist vera í skýjunum með að þessum áfanga sé náð.

„Þetta er mikill og stór áfangi þar sem það hefur verið deilt um ýmislegt. Við höfum unnið þvert á flokka en ég held að það sé breið samstaða á bakvið niðurstöðuna, þó hún sé nokkuð róttæk,“ segir Dagur.

Í skipulaginu verður lögð mikil áhersla á að bæta almenningssamgöngur í borginni auk þess sem töluverðir fjármunir hafa verið settir í að bæta hjólaleiðir. Þá mun ásýnd borgarinnar breytast töluvert á næstunni. Dagur segir hugsunina að hafa fjörugt atvinnulíf í bland við íbúðarhúsnæði í borginni allri.

„Þetta er mjög græn stefna. Við viljum hafa matjurtagarða og kaupmannin á horninu í öllum hverfum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×