Enski boltinn

Gylfi Þór: Verður erfitt að ná Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi skýtur að marki í leik gegn WBA í úrvalsdeildinni.
Gylfi skýtur að marki í leik gegn WBA í úrvalsdeildinni. Vísir/Getty
„Ég er byrjaður að hlaupa og gera fullt af æfingum en finn enn til ef ég tek spretti úr kyrrstöðu,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta, í viðtali við Morgunblaðið í dag en Gylfi hefur verið frá keppni í síðustu fjórum leikjum Lundúnarliðsins vegna meiðsla.

Hann gæti verið í hópnum þegar Tottenham fær Cardiff í heimsókn í Íslendingaslag á laugardaginn en meiðslin koma til vegna höggs á læri sem hann fékk. Það blæddi svo inn á vöðvann skömmu síðar og hefur það tekið Hafnfirðinginn sinn tíma að fá sig góðan.

„Ég vona svo sannarlegaað ég nái að spila þessa síðustu mánuði á tímabilinu. Þetta eru önnur meiðslin mín í vetur en ég hef verið heppinn hvað meiðsli varðar,“ segir Gylfi sem hefur komið við sögu í 16 deildarleikjum með Tottenham á tímabilinu.

Tottenham er í baráttunni um fjórða sæti deildarinnar, því síðasta sem gefur keppnisrétt í Meistaradeildinni í haust, ásamt nokkrum öðrum liðum. Þar er Liverpool í bílstjórasætinu og í góðri stöðu eftir úrslit síðustu helgar.

„Það var mjög slæmt að við skyldum tapa þessum leik á móti Norwich á meðan Liverpool vann sinn leik. Það hefði verið gott að halda þessu í þremur stigum en nú munar sex stigum og eiginlega sjö þar sem markatala Liverpool er miklu betri en hjá okkur. Það verður erfitt að ná Liverpool,“ segir Gylfi.

Viðtalið í heild þar sem Gylfi ræðir frekar um ensku úrvalsdeildina, riðil Íslands í undankeppni EM 2016 og vináttulandsleikinn gegn Wales í byrjun næsta mánaðar má lesa í Morgunblaðinu í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×