Enski boltinn

Chelsea í samstarf við Simpson-fjölskylduna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Heimasíða Chelsea
Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur undirritað samstarfssamning við framleiðendur sjónvarpsþáttanna um Simpson-fjölskylduna.

Aðdáendur þáttanna mega eiga von á því að sjá feðgana Homer og Bart Simpson í bláa búningi Chelsea en ætlunin er að framleiða og selja ýmiskonar varning þessu tengdu.

„Við erum stoltir af þessu samstarfi,“ sagði Ron Gourlay, framkvæmdarstjóri Chelsea, í frétt sem birtist á heimasíðu félagsins. „Þetta eru gríðarlega vinsælir þættir og ég vona að stuðningsmenn Chelsea verði ánægðir með að aðalpersónur þáttarins verði í okkar litum.“

Eins og sést á meðfylgjandi mynd voru nokkrir leikmenn Chelsea teiknaðir eins og persónur í þáttunum en þarna má sjá þá Eden Hazard, Fernando Torres, John Terry, Frank Lampard og Petr Cech.

David Luiz var þó ekki í þessum hópi en honum hefur oft verið líkt við Sideshow Bob, þekkta persónu úr þáttunum, en þeir félagar eru með svipaða hárgreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×