Enski boltinn

Stoke heldur áfram að stríða toppliðunum - vann Arsenal í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jon Walters fagnar marki sínu.
Jon Walters fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Stoke er erfitt heim að sækja og því fengu Arsenal-menn enn á ný að kynnast í dag þegar Stoke vann 1-0 sigur á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Jon Walters skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu.

Þetta er mikið áfall fyrir Arsenal-liðið og gæti verið afdrifaríkt í baráttu liðsins um enska meistaratitilinn. Chelsea nýtti líka tækifærið og náði fjögurra stiga forskoti á toppnum.

Stoke City er búið að vinna bæði Chelsea og Manchester United á heimavelli sínum í vetur auk þess að gera jafntefli við Manchester City. Þetta var ennfremur fjórða árið í röð sem Arsenal tekst ekki að vinna á Brittania-leikvanginum í Stoke og það er fyrir löngu orðin til Stoke-grýla í herbúðum Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal.

Laurent Kocsielny fékk á sig víti á 76. mínútu fyrir að handleika boltann í teignum og Jon Walters skoraði úr vítinu. Jon Walters var búinn að klikka á fjórum af síðustu sex vítaspyrnum sínum en fór samt óhræddur á vítapunktinn og skoraði af öryggi.

Mesut Özil kom inn á í seinni hálfleik, lífgaði aðeins upp á sóknarleik liðsins og fékk eitt mjög gott færi en heilt yfir var þetta mjög slakur leikur hjá Arsenal-liðinu.

Arsenal hefur verið að gefa eftir að undanförnu en liðið hefur aðeins náð að vinna einn af síðustu fjórum deildarleikjum sínum og á þeim tíma hefur liðið misst toppsætið til Chelsea sem er með fjögurra stiga forskot eftir úrslit dagsins.

Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×