Enski boltinn

Suarez skoraði eitt og lagði upp tvö - Liverpool í annað sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Liverpool vann sinn fjórða leik í röð í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar Luis Suarez og félagar sóttu þrjú stig til Southampton. Liverpool vann Southampton 3-0 og komst þar með upp fyrir Arsenal og Manchester City og alla leið upp í annað sæti deildarinnar.

Úrúgvæmaðurinn Luis Suarez skoraði fyrra markið í upphafi leiks, lagði upp annað markið fyrir varamanninn Raheem Sterling og fiskaði síðan vítaspyrnu í uppbótartíma sem Steven Gerrard nýtti af öryggi.

Liverpool fór upp fyrir bæði Manchester City og Arsenal með þessum sigri. Liverpool og Arsenal eru bæði með 59 stig en City er síðan tveimur stigum á eftir. City á hinsvegar tvo leiki inni á öll liðin fyrir ofan sig og kemst í toppsætið vinni liðið þá.

Luis Suarez skoraði ekki mark í febrúarmánuði en hann var búinn að skora eftir sextán mínútna leik í fyrsta leiknum sínum í mars. Suarez afgreiddi boltann þá í markið rétt innan vítateigslínu eftir að hann hrökk til hans eftir veggspil Suarez og Daniel Sturridge.

Raheem Sterling var ekki búinn að vera lengi inn á vellinum þegar hann kom Liverpool í 2-0 á 58. mínútu með sinni fyrstu snertingu. Suarez bjó markið algjörlega fyrir hann.

Suarez fiskaði síðan vítaspyrnu í uppbótartíma og Steven Gerrard innsiglaði flottan 3-0 útisigur.

Daniel Sturridge náði ekki að skora í sínum níunda deildarleik í röð þrátt fyrir að hafa fengið færi til þess en hann var tekinn af velli á 85. mínútu.

Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×