Innlent

"Ekki vildi ég vera í framboði fyrir þessa flokka í sveitarstjórnarkosningunum"

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ.
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ.
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sýna að stefna ríkisstjórnarinnar um að slíta aðildarviðræðum við ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu njóti næstum því einskis stuðnings meðal kjósenda.

Um 82 prósent þjóðarinnar vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna samkvæmt könnun stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Einungis 18,4 prósent eru á móti. Stuðningur við þjóðaratkvæðagreiðslu eykst á milli kannana en í janúar sögðust 74,6 prósent vilja að þjóðaratkvæðagreiðslu.

Meirihluti kjósenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu eða 51 prósent kjósenda Framsóknarflokks og rúmlega 66 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks.

„Ég held að það þurfi að hafa í huga að stuðningurinn var mjög mikill fyrir. Um 75 prósent kjósenda vildu þjóðaratkvæðagreiðslu núna í janúar. Stuðningurinn eykst upp í 82 prósent sem er auðvitað aukning en málið var fyrir með mjög eindreginn stuðning. Þessi aukning er sennilega tilkomin vegna þess að þessi leikur ríkisstjórnarinnar að reyna flýta málinu til að fá það úr sögunni hefur, í bili, ekki tekist vel. Kjósendur hafa brugðist illa við þannig að sú lína sem ríkisstjórnin hefur í málinu hún nýtur næstum því einskis stuðnings meðal kjósenda,“ segir Gunnar Helgi.

Nokkrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar lýstu því yfir fyrir síðustu kosningar að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu um framhald aðildarviðræðna. Nú hafa þeir hins vegar skipt um skoðun.

Gunnar segir að þetta geti reynst flokkunum erfitt í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

„Ekki vildi ég vera í framboði fyrir þessa flokka í sveitarstjórnarkosningunum og þurfa að segja við kjósendur að loforð sem væru gefin í kosningabaráttu væru eiginlega bara sett fram fyrir kosningar og hefðu ekkert sérstakt gildi eftir kosningar. Ég held að staðan verði mjög erfið fyrir flokkana í næstu sveitarstjórnarkosningum,“ segir Gunnar Helgi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×