Innlent

Kópavogur með minnstan kynbundinn launamun

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Dregið hefur úr kynbundnum launamun hjá bænum frá því á árinu 2003 en þá var munurinn 4,7 prósent.
Dregið hefur úr kynbundnum launamun hjá bænum frá því á árinu 2003 en þá var munurinn 4,7 prósent.
Kópavogsbær er með minnstan kynbundinn launamun sé tekið mið af stærstu sveitarfélögum landsins. Kynbundinn munur á heildarlaunum hjá Kópavogsbæ er 3,25 prósent körlum í vil. Þetta er niðurstaða skýrslu um rannsókn á samanburði á launum karla og kvenna hjá Kópavogsbæ í apríl 2013. Niðurstaðan var kynnt á fundi bæjarráðs í gær.

Dregið hefur úr kynbundnum launamun hjá bænum frá því á árinu 2003 en þá var munurinn 4,7 prósent.

Launamunur í Reykjavík er 5,8 prósent, 6,1 prósent í Hafnarfirði og 3,9 prósent á Akureyri. Tekið er fram að í útreikningum Kópavogsbæjar var ekki mögulegt að taka tillit til menntunar og starfsaldurs. Fram kemur að miklar líkur eru á því að óútskýrður launamunur kynjanna hjá bænum myndi mælast enn minni ef þær breytur væru teknar með.

Frekari áætlanir um að útrýma kynbundnum launamun

Á fundi bæjarráðs í gær var lögð fram áætlun um frekari aðgerðir til að útrýma kynbundnum launamun með öllu. Í áætluninni er meðal annars lagt til að stjórnendur hljóti fræðslu um verklag við launasetningu og mikilvægi þess að jafnlaunasjónarmið séu ávallt höfð að leiðarljót. Sömuleiðis að stjórnendum verði falið að endurskoða samninga um fastar yfirvinnugreiðslur með það að markmiði að leiðrétta kynbundinn launamun, komi hann í ljós.  Samhliða verði skoðað hvort innleiða eigi jafnlaunastaðal hjá Kópavogsbæ.

Í frétt Kópavogsbæjar um skýrsluna segir að það sé skýr stefna bæjarins að vinna gegn kynbundnum launamun. Rannsóknin sé tæki í þeirri vinnu sem og þær aðgerðir sem kynntar voru á fundi bæjarráðs. Til stendur að gera aðra launakönnun fyrir árslok 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×