Innlent

Forsetinn mótar ekki utanríkisstefnuna

Heimir Már Pétursson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir ríkisstjórnina ekki vera að reyna að brenna sem flestar brýr að baki í Evrópumálum til að gera ríkisstjórnum framtíðarinnar erfiðara fyrir að taka málið upp. Hann segir forseta Íslands frjálst að tjá hug sinn, en hann móti ekki stefnu Íslands í utanríkismálum.

Hart hefur verið tekist á um áform ríkisstjórnarinnar að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka á Alþingi í þessari viku og þeim verið mótmælt á Austurvelli og með tugum þúsunda undirskrifta á Netinu. Fylgjendum áframhaldandi viðræðna finnst að stjórnarflokkarnir fari fram af mikilli hörku í málinu. Í sjónvarpsþættinum Pólitíkin á Vísi þvertekur utanríkisráðherra fyrir þetta.

Að þið séuð að reyna að brenna eins margar brýr að baki og hægt er?

„Þetta er náttúrlega alrangt. Því ef við hefðum ætlað að fara þá leið hefðum við bara gert þetta í sumar. Ríkisstjórnin tekið ákvörðun og ekkert virt þingið eða neitt slíkt. Eða þá farið með þingsályktunartillögu inn í þingið í sumar, inn á sumar þing, og keyrt þetta í gegn,“ segir utanríkisráðherra.

Í Pólitíkinni ræðum við ítarlega við utanríkisráðherra um Evrópusambandsmálið og fleiri mál eins og samskiptin við Rússa sem ráðherra minnir á að hafi verið náin í 70 ár.

„Mér finnst að þeir hafi gengið allt of langt í ákveðnum hlutum, t.d. þegar kemur að mannréttindum og réttindum samkynhneigðra og slíkt. Mér finnst þeir ganga allt of langt og ég hef komið því á framfæri við rússnesk stjórnvöld“ segir Gunnar Bragi m.a. um samskiptin við Rússland.

Þá ræðum við samskipti ráðherra við forseta Íslands. Hann segir reglu að utanríkisráðherra eða aðrir ráðherrar fylgi forseta í opinberar heimsóknir.

„Þar talar utanríkisráðherra um utanríkismál. Ef það er hins vegar þannig að forsetinn er á ferðinni, fer á einhverjar aðrar ráðstefnur eða fundi er honum að sjálfsögðu frjálst að tjá hug sinn. En það er ekki hann sem mótar stefnu Íslands í utanríkismálum. Það er ekki hann sem talar fyrir hönd íslenska ríkisins og ríkisstjórnarinnar um utanríkismál,“ segir Gunnar Bragi í Pólitíkinni á Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×