Enski boltinn

Þrír sigrar í röð hjá West Ham - öll úrslit kvöldsins í enska boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Collins fagnar hér marki sínu.
James Collins fagnar hér marki sínu. Vísir/Getty
West Ham vann sinn þriðja leik í röð í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld þegar liðið vann 2-0 heimasigur á Norwich. Southampton vann 1-0 útisigur á Hull City. Cardiff City og West Bromich Albion gerðu bæði jafntefli en komust samt ekki upp úr fallsæti í kvöld.

James Collins og Mohamed Diamé tryggði West Ham 2-0 sigur á Norwich City með mörkum á síðustu sex mínútum leiksins en Diamé lagði upp fyrra markið fyrir Collins og skoraði síðan það síðara sjálfur.

West Ham hefur nú unnið þrjá síðustu deildarleiki sína 2-0, fyrst á móti Swansea City, svo á móti Aston Villa og loks á móti Norwich City í kvöld. West Ham sluppu þó vel í kvöld því Norwich-liðið fékk fullt af færum í leiknum.

Það þurfti marklínutæknina til að skera út um hvort það var José Fonte eða Rickie Lambert sem skoraði sigurmark Southampton í 1-0 sigri á Hull City. Southampton hefur nú leikið sex leiki í röð án þess að tapa.

Eina mark leiksins kom eftir mikla stórskotahríð að marki Hull. Steve Harper, markvörður Hull, varði þrisvar áður en Lambert kom boltanum í netið en þegar betur var á gáð þá tókst honum ekki að halda þriðja skotinu utan marklínunnar. José Fonte átti það skot og fær því markið skráð á sig en það var einmitt hann sem hóf þessa miklu skothríð Southampton.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta var ekki í hópnum hjá Ole Gunnari Solskjær þegar Cardiff City gerði markalaust jafntefli við Aston Villa. Leikurinn opnaðist mikið á lokamínútunum og fengu þá bæði lið fín tækifæri til að tryggja sér öll stigin. Hvorugu liðinu tókst hinsvegar að skora og bæði sá á eftir tveimur mikilvægum stigum í fallbaráttunni.

Chelsea tókst ekki að ná fjögurra stiga forskoti á Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld því liðið gerði aðeins 1-1 jafntefli við West Bromwich Albion. Victor Anichebe tryggði West Brom stig á móti toppliðinu þegar hann skoraði jöfnunarmarkið þremur mínútum fyrir leikslok. Fram að því leit út fyrir að Branislav Ivanovic ætlaði að verða hetja Chelsea á ný en hann kom liðinu yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiksins.



Úrslit og markaskorarar í ensku úrvalsdeildinni í kvöld:

Cardiff City - Aston Villa    0-0

Hull City - Southampton    0-1

0-1 José Fonte (69.)

West Ham - Norwich City    2-0

1-0 James Collins (84.), 2-0 Mohamed Diamé (90.+4).

West Bromwich Albion - Chelsea    1-1

0-1 Branislav Ivanovic (48.), 1-1 Victor Anichebe (87.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×