Enski boltinn

Chelsea náði ekki fjögurra stiga forskoti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Chelsea tókst ekki að ná fjögurra stiga forskoti á Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld því liðið gerði aðeins 1-1 jafntefli við West Bromwich Albion.  Chelsea er engu að síður með tveggja stiga forskot á toppnum.

Victor Anichebe tryggði West Brom stig á móti toppliðinu þegar hann skoraði jöfnunarmarkið þremur mínútum fyrir leikslok. Chelsea-liðið var búið að halda hreinu í undanförnum þremur deildarleikjum sínum.

Fram að því leit út fyrir að Branislav Ivanovic ætlaði að verða hetja Chelsea á ný en hann kom liðinu yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiksins. Þessi úrslit sýna að það er von á öllu í baráttunni um enska meistaratitilinn í ár.

Það varð Chelsea-liðinu að falli að ætla að reyna að verja forskotið síðustu tuttugu mínútur leiksins því leikmenn West Brom færðustu þá allir í aukana og áttu jafnvel möguleika á því að tryggja sér sigur.

Eftir rólegan fyrri hálfleik var það Branislav Ivanovic sem kom Chelsea yfir með marki á þriðju mínútu í uppbótartíma. Ivanovic var þá réttum stað eftir að David Luiz framlengdi hornspyrnu Willian fyrir markið.

Victor Anichebe kom inná sem varamaður á 73. mínútu og jafnaði leikinn á 87. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Saido Berahino.

Pepe Mel, knattspyrnustjóra West Brom, tókst að kveikja í sínum mönnum með góðum skiptingum í seinni hálfleik. Þetta var þriðji heimaleikurinn í röð þar sem liðið lendir undir en nær að tryggja sér stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×