Enski boltinn

Wenger útilokar ekki endurkomu Van Persie

Robin van Persie mætir á gamla heimavöllinn annað kvöld.
Robin van Persie mætir á gamla heimavöllinn annað kvöld. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, útilokar ekki að Robin van Persie gangi aftur í raðir félagsins í sumar.

Manchester United keypti Hollendinginn fyrir 24 milljónir punda sumarið 2012 og skoraði hann 30 mörk á sinni fyrstu leiktíð á Old Trafford.

Stuðningsmenn Arsenal voru ósáttir við söluna og ekki bætti úr skák að öll mörkin komu sér vel að notum fyrir United á leið sinni að 20. Englandsmeistaratitlinum.

Van Persie hefur verið nokkuð frá vegna meiðsla á tímabilinu en skorað þó sinn skerf af mörkum. Hann er ekki fullkomlega sáttur við þjálfunaraðferðir Davids Moyes og er þrálátur orðrómur í gangi á Englandi um að hann fari aftur til Arsenal í sumar.

„Ég held það sé best að vera ekki að tala um þetta núna,“ sagði Wenger á blaðamannafundi í dag aðspurður um málið og neitaði ekki fyrir að Arsenal myndi reyna fá Hollendinginn til baka eftir tímabilið.

Arsenal tekur einmitt á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld og þar mætir Robin van Persie aftur á sinn gamla heimavöll. Bæði lið eru særð eftir slæm úrslit um helgina.

„Van Persie er frábær leikmaður. Það er undir okkur komið hvernig við verjumst honum,“ sagði Arsene Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×