Enski boltinn

Mourinho: Stigu ekki fæti inn í teiginn okkar fyrsta klukkutímann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Anichebe skorar hér jöfnunarmarkið framhjá Petr Cech.
Victor Anichebe skorar hér jöfnunarmarkið framhjá Petr Cech. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, þurfti að horfa á eftir tveimur stigum í kvöld þegar Chelsea-liðið missti frá sér sigur í lokin í 1-1 jafntefli á móti West Bromwich Albion.

Chelsea átti möguleika á því að ná fjögurra stiga forskoti á toppnum með sigri en nú munar aðeins tveimur stigum á Chelsea og Arsenal sem þýðir að Arsenal kemst á toppinn á ný með sigri á Manchester United á morgun.

„Þeir settu okkur undir mikla pressu síðustu tuttugu mínúturnar og markið þeirra kom í framhaldi af því. Kannski áttu þeir stigið skilið. Stig er samt stig og við sjáum til hvað þetta stig skilar okkur í lok tímabilsins," sagði Jose Mourinho við BBC.

„Við vorum með þennan leik í okkar höndum fyrsta klukkutímann. Leikmenn West Brom stigu þá ekki fæti í teiginn okkar. Við gátum bara ekki drepið leikinn," sagði Mourinho.

„Okkur leið vel í þessum leik og kannski of vel. Ef City eða Arsenal vinna á morgun þá fara þau upp fyrir okkur en það er þeirra verkefni. Allir leikir eru erfiðir og öll þurfa á stigum að halda," sagði Mourinho.

Branislav Ivanovic kom Chelsea yfir með marki á þriðju mínútu í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Victor Anichebe kom inná sem varamaður á 73. mínútu og jafnaði leikinn á 87. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×