Enski boltinn

Gerrard tryggði Liverpool sigurinn í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Liverpool fylgdi eftir stórsigrinum á Arsenal um síðustu helgi með 3-2 endurkomusigri á botnliði Fulham á Craven Cottage í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Skelfilegt sjálfsmark Kolo Touré í upphafi leiksins kom Liverpool í vandræði og þá virtist Luis Suarez vera fyrirmunað að skora þrátt fyrir margar frábærar tilraunir.

Það var hinsvegar Daniel Sturridge sem reddaði málunum en hann átti þátt í öllum þremur mörkunum og fiskaði vítið sem Steven Gerrard skoraði úr sigurmarkið á fyrstu mínútu í uppbótartíma.

Liverpool lenti undir í tvígang í leiknum en tókst að koma til baka og landa þremur mikilvægum stigum í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Liverpool hefur nú þriggja stiga forskot á Tottenham sem vann stórsigur fyrr í kvöld.

Kolo Touré heldur áfram að gefa andstæðingum Liverpool mörk en hann skoraði skrautlegt sjálfsmark strax á 8. mínútu þegar hann kiksaði lausa fyrirgjöf Kieran Richardson í eigið mark

Daniel Sturridge jafnaði fyrir Liverpool á 41. mínútu eftir frábæra stungusendingu frá Steven Gerrard. Dæmigert mark fyrir framherjann eldfljóta.

Kieran Richardson kom Fulham í 2-1 eftir önnur mistók miðvarðar Liverpool. Boltinn fór þá af Martin Skrtel fyrir fætur Richardson sem gat ekki annað en skorað.

Liverpool jafnaði aftur leikinn níu mínútum síðar en Philippe Coutinho skoraði þá með skoti fyrir utan teig sem hafði viðkomu í varnarmanni Fulham.

Daniel Sturridge lagði upp markið fyrir Coutinho og Sturridge fiskaði einnig víti á lokamínútu leiksins. Þjóðverjinn Sascha Riether sparkaði þá Sturridge klaufalega niður í teignum og Steven Gerrard skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×