Enski boltinn

Adebayor með tvö mörk í stórsigri Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Adebayor fagnar öðru marka sinna.
Emmanuel Adebayor fagnar öðru marka sinna. Vísir/Getty
Emmanuel Adebayor skoraði tvö mörk fyrir Tottenham í 4-0 útisigri á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en með þessum sigri eru Gylfi Þór Sigurðsson og félagar farnir að anda ofan í hálsmálið á Liverpool-mönnum í baráttunni um fjórða sætið.

Emmanuel Adebayor hefur heldur betur verið Tottenham mikilvægur síðan að Tim Sherwood gaf honum tækifærið en Tógómaðurinn skoraði einnig sigurmarkið á móti Everton um síðustu helgi og hefur alls skorað 8 mörk í 10 deildarleikjum undir stjórn Sherwood.

Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Tottenham í þessum leik eftir að hafa meiðst á æfingu á dögunum. Gylfi hefur verið lítið með liðinu það sem af er þessu ári.

Emmanuel Adebayor skoraði fyrsta markið á 19. mínútu eftir mistök Tim Krul í marki Newcastle og Paulinho bætti við öðru marki á 53. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Adebayor.

Adebayor skoraði annað mark sitt á 82. mínútu eftir að umræddur Krul hafði varið langskot Andros Townsend upp í loftið. Belginn Nacer Chadli innsiglaði síðan sigurinn undir lokin með sínu fyrsta marki í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×