Enski boltinn

Hodgson: Rooney þarf að sýna heiminum hversu góður hann er

Wayne Rooney hefur verið góður á tímabilinu.
Wayne Rooney hefur verið góður á tímabilinu. Vísir/EPA
Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, vill að Wayne Rooney sýni heiminum hversu góður hann virkilega er á HM í sumar.

Rooney hefur spilað vel fyrir slakt United-lið á leiktíðinni og virðist vera í góðu standi fyrir HM í Brasilíu.

„Eins og staðan er lítur allt út fyrir að England verði með Wayne Rooney í toppstandi í sumar bæði líkamlega og andlega. Þegar kemur að gæðum hans á vellinum vita allir hversu góður Wayne er,“ segir Hodgson.

Landsliðsþjálfarinn vonast til að Rooney láti ekki annað stórmót renna sér úr greipum en hann hefur ýmist látið reka sig af velli eða mætt til leiks skömmu eftir meiðsli og engan veginn í standi.

„Það hefur kannski gerst einu sinni eða tvisvar að hann hafi misst sig með landsliðinu en við tökum honum bara sem þeim frábæra leikmanni sem hann er. Mín skilaboð til hans eru bara að þetta er hans tækifæri. Hann er 28 ára sem er frábær aldur.“

„Þarna verður heimurinn að horfa sem er frábært tækifæri fyrir hann að sanna fyrir öllum það sem við vitum allir: Að hann er einstaklega hæfileikaríkur fótboltamaður,“ segir Roy Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×