Enski boltinn

Öruggur sigur Everton

Lacina Traore fagnar fyrsta marki sínu með Everton
Lacina Traore fagnar fyrsta marki sínu með Everton
Everton komst á öruggan hátt í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar með sigri á Swansea á heimavelli. Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum og hefði sigurinn geta orðið mun stærri en hann varð.

Lacina Traore var ekki lengi að koma sér á blað hjá Everton. Hann kom liðinu yfir í sínum fyrsta leik með lúmskri hælspyrnu nálægt marki Swansea en boltinn hafði reyndar viðkomu í varnarmanni gestanna á leiðinni inn.

Swansea pressaði hátt uppi á vellinum í kjölfar marksins. Pressan bar árangur á sautjándu mínútu þegar Jonathan de Guzman skoraði með laglegum skalla eftir góða sendingu frá Neil Taylor.

Taylor átti svo eftir að leika hlutverk skúrksins í síðari hálfleik þegar sending hans til baka á markvörðinn Tremmel var lesin af Steven Naismith sem hirti boltann og skoraði. Naismith var þá nýkominn inná sem varamaður í stað Traore.

Leikmenn Everton voru mun sterkari eftir að hafa komist yfir og gerðu harða atlögu að liði Swansea.

Sú atlaga borgaði sig þegar Naismith fann leiðina inn í vítateig Swansea á nýjan leik en var stöðvaður ólöglega af Ashley Richards.

Leighton Baines skoraði örugglega úr vítaspyrnunni og staðan því orðin vænleg fyrir Everton þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

Leikmenn Swansea komust ekkert áleiðis það sem eftir lifði leiks, en Everton þurfti að leika síðustu sex mínútur leiksins einum færri þar sem Naismith þurfti að yfirgefa völlinn vegna höfuðmeiðsla og Roberto Martinez hafði lokið öllum skiptingum sínum í leiknum.

Það kom ekki að sök og öruggur sigur Everton staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×