Enski boltinn

Svikin loforð hjá Mascherano í Liverpool

Javier Mascherano mætir með Barcelona til Manchester í vikunni.
Javier Mascherano mætir með Barcelona til Manchester í vikunni. Vísir/Getty
Javier Mascherano opnar sig í dag í fyrsta skipti um félagaskipti sín frá Liverpool til Barcelona.

Argentínumaðurinn, sem lék í þrjú ár á Anfield, segir svikin loforð hafa meðal annars orðið til þess að hann fór til Katalóníu.

Macherano leið vel hjá Liverpool undir stjórn Rafael Benítez en honum gekk verr að eiga við Roy Hodgson og framkvæmdastjórann Christian Purslow.

„Ég vildi ekki segja neitt á þeim tíma vegna virðingar minnar fyrir Liverpool. Kannski voru það mistök því fólk fór að tala illa um mig. En ég sé ekki eftir því,“ segir Mascherano.

„Liverpool er sérstakt félag og það á slæma framkomu ekki skilið. Þeir sem voru yfir á þeim tíma, stjórinn og Christian Purslow, eru báðir farnir en þeir vita sannleikann.“

„Þegar ég mætti aftur til Liverpool á undirbúningstímabilinu átti ég marga fundi með þeim. Þeir lofuðu öllu fögru en stóðu ekki við neitt,“ segir Argentínumaðurinn.

Þegar Barcelona var búið að leggja fram tilboð í Mascherano og félagaskiptin urðu líklegri með hverjum deginum sem leið neitaði Mascherano að spila leik gegn Manchester City í ágúst 2010.

Það vakti upp mikla reiði hjá stuðningsmönnum liðsins og létu gamlar hetjur eins og Phil Thompson hann heyra það í fjölmiðlum.

„Ég vaknaði ekkert einn daginn og neitaði að spila fyrir Liverpool. Í leiknum á undan Man. City gegn Arsenal gaf ég allt mitt því ég var í Liverpool-treyjunni.“

„Af hverju hefði ég átt að vera leggja mig allan fram í þann leik en neita svo að spila þann næsta? Það gengur bara ekki upp,“ segir Javier Mascherano.



Javier Mascherano í leik með Liverpool.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×