Innlent

Frambjóðandi þreyttur á leðjuslag í Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi

Heimir Már Pétursson skrifar
Vísir/Samsett/Vilhelm
Aðalsteinn Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi segir menn koma heim með þrjá fjóra hnífa í bakinu eftir starf í flokknum og er orðinn þreyttur á leðjuslagnum innan flokksins.

Frambjóðandi í annað sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi um næstu helgi segir menn koma heim til sín á kvöldin með hnífa í bakinu eftir pólitískt starf í flokknum og er orðinn þreyttur á áralöngum leðjuslag innan hans. Gríðarleg spenna ríkir milli þeirra sem styðja bæjarstjórann og keppinaut hans um fyrsta sætið á lista flokksins í prófkjöri um næstu helgi.

Fimm framámenn í Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi hafa sent fjölmiðlum yfirlýsingu þar sem gagnrýnt er að nöfnum þeirra sem meðmælendum um framboð Margrétar Friðriksdóttur skólameistara Menntaskólans í Kópavogi í fyrsta sæti listans hafi verið lekið til DV, sem greindi frá stuðningi þeirra á miðvikudag.

Fimmmenningarnir vilja meina að þar með hafi verið rofinn trúnaður sem ríkja eigi um framboðsgögn og meðmælendur í kjörnefnd flokksins. Aðalsteinn Jónsson fyrrverandi handboltakappi með Breiðablik og Shutterwald í þýskalandi og núverandi bæjarfulltrúi, er einn fimmmenninganna. Hann vill ekki saka Braga Michaelsson formann kjörnefndar um að hafa lekið gögnunum en segir þau augljóslega að minnsta kosti hafa legið á glámbekk. Í handboltanum hafi menn tekist á við andstæðinginn á vellinum en að leik loknum hafi menn komið saman og fengið sér kaffi.

„Í pólitíkinni er það sama, en þegar maður kemur heim er maður með þrjá, fjóra hnífa í bakinu. Ég hef sagt það alveg frá byrjun og ég segi það núna að þetta er bara svona og menn nota öll brögð sem hægt er,  því miður,  til að koma höggi á andstæðinginn. Mér finnst það til vansa,“ segir Aðalsteinn.

Reynt sé að stilla stuðningsmönnum Margrétar í fyrsta sætið upp sem liðsmönnum Gunnars Birgissonar fyrrverandi oddvita flokksins gegn Ármanni Kr. Ólafssyni núverandi oddvita. Hann vilji ekki fullyrða að Ármann stýri þeim leik.

„En það eru einhverjir, greinilega, sem eru hræddir við framgöngu Margrétar Friðriksdóttur. Af því að þarna er mjög frambærileg kona og það eru einhverjir hræddir og vilja gera framboð hennar tortryggilegt,“ segir Aðalsteinn.

Hann hafi aldrei viljað stilla sér upp með einhverri fylkingu í þeim deilum sem staðið hafi yfir í flokknum undanfarin ár og vilji ekki taka þátt í þeim leðjuslag.

„Það eru allir verðugir að fara í þetta og keppa að sama marki. Síðan verður að koma í ljós hver er sigurvegarinn,“ segir Aðalsteinn.

Enn takist tvær fylkingar á innan flokksins en það hafi verið rætt innan flokksins að þeir sem væru í forsvari innan hans eins og Bragi ættu að gæta hlutleysis, en hann hafi lýst yfir stuðningi við Ármann. Það verði að ræða öll þessi mál innan fulltrúaráðsins strax að loknu prófkjöri. Í handboltanum gefi dómari mönnum gula og rauða spjaldið eða sendi þá útaf í tvær mínútur ef þeir hagi sér ekki vel.

„Ég er maður til að ræða málin og reyna að leysa þau. Þar á náttúrlega oddvitinn í ýmsum málum að koma fram og ræða málin og leysa. Ég hef oft gagnrýnt það í þessi þrjú og hálft ár að það hefur ekki alltaf verið svo. Þannig að, jú, jú gula spjaldið klárlega og það er til þess að menn ræði alla vega málin og reyni að bæta sig og laga og svo framvegis,“ segir Aðalsteinn Jónsson bæjarfulltrúi í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×