Enski boltinn

Fleiri leikmenn Manchester United vilja komast burt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Anderson fagnar marki ásamt Ashley Young.
Anderson fagnar marki ásamt Ashley Young. Vísir/AFP
Brasilíumaðurinn Anderson, sem er í láni hjá Fiorentina frá Englandsmeisturum Manchester United, telur marga liðsfélaga sína hjá síðarnefnda liðinu vera í leit að nýrri áskorun.

Anderson, sem gekk til liðs við ítalska félagið í síðasta mánuði á lánssamningi, hélt því þó fram að vistaskiptin væru til lengri tíma. Hann hefur átt erfitt uppdráttar hjá United frá því hann kom til Englands frá Porto sumarið 2007 ásamt Nani.

Anderson segir Nani einmitt líklegan til að halda á vit nýrra ævintýra og segir framtíð Patrice Evra, Rio Ferdinand og fyrirliðans Nemanja Vidic í uppnámi.

„Ég er viss um að margir vilja komast í burtu. Sérstaklega leikmenn á borð við mig og Nani sem hafa verið hjá Manchester United í sjö til átta ár,“ segir Anderson.

Brasilíski miðjumaðurinn fer fögrum orðum um enska félagið og segir það koma vel til móts við óskir leikmanna sinna.

„Stundum vilja leikmenn komast í annað fótboltaumhverfi og læra eitthvað í leiðinni,“ hefur Guardian eftir Anderson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×