Enski boltinn

Chelsea hafði betur í stórslagnum á Etihad

Manchester City hafði skorað í 61 leik í röð þegar lærisveinar Jose Mourinho í Chelsea mættu í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Eins og svo oft áður höfðu liðsmenn Portúgalans betur í stórleiknum, nú 1-0.

Mikils var vænst í uppgjöri toppliðanna á Etihard í kvöld og stóð hann svo sannarlega undir væntingum. Gestirnir frá Lundúnum mættu sterkari til leiks í fyrri hálfleik og fengu góð færi áður en mark leit dagsins ljós. Þá tók Branislav Ivanovic, Serbinn í hægri bakverðinum hjá þeim dökkbláklæddu, sig til og hamraði boltann neðst í hornið með skoti frá vítateigslínu.

Liðsmenn Manchester City, sem eru taplausir á heimavelli í úrvalsdeildinni í vetur, áttu í mestu vandræðum með gestina sem komust oft í álitlegar stöður. Það var aðeins fyrir klaufaskap Chelsea að forystan var aðeins eitt mark í hálfleik.

Áfram hélt baráttan í síðari hálfleik þar sem leikurinn opnaðist upp á gátt. Petr Cech varði aukaspyrnu Yaya Toure með tilþrifum og þá fékk David Silva dauðafæri innan teigs eftir fyrirgjöf frá hægri. Spánverjinn hitti hins vegar ekki markið. Undir lok viðbótartíma átti Svartfellingurinn Stevan Jovetic hörkuskot sem Cech varði vel.

Lærisveinar Jose Mourinho héldu út pressu heimamanna og nældu í stigin þrjú. Fyrir vikið er Chelsea komið upp að hlið City í annað sæti deildarinnar. Bæði lið hafa 53 stig en Arsenal er á toppnum með 55 stig.

Chelsea vann einnig sigur í leik liðanna á Stamford Bridge fyrr í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×